Fjármál og
ársreikningur

Section
Segment

Raforkuvinnsla og sala Landsvirkjunar á árinu 2013 gekk vel. Selt magn nam 13.186 GWst á árinu sem er mesta raforkusala í sögu félagsins. Á árinu var að mestu lokið við byggingu Búðarhálsvirkjunar sem skilar félaginu aukinni framleiðslugetu frá mars 2014.

Góð afkoma grunnrekstrar

Árið 2013 hækkuðu tekjur frá fyrra ári vegna aukinnar raforkusölu og hækkandi flutningstekna en á móti kom að álverð á heimsmarkaði fór lækkandi á árinu. Afkoma grunnrekstrar, hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, hefur farið hækkandi síðustu ár og var 2013 besta afkomuár í sögu fyrirtækisins. Þrátt fyrir þetta var tap á rekstri fyrirtækisins eftir skatta. Tapið skýrist af lækkun álverðs á heimsmarkaði sem kemur meðal annars fram í mikilli lækkun á bókfærðu verði innbyggðra afleiða sem fyrirtækið getur haft takmörkuð áhrif á.

Handbært fé frá rekstri nam 258 milljónum USD sem er það næst hæsta í sögu samstæðunnar. Fjárfestingar hækkuðu frá fyrra ári en sökum góðs sjóðstreymis var mögulegt að halda áfram að greiða niður skuldir og styrkja fjárhagsstöðu fyrirtækisins.

Landsvirkjun hefur á undanförnum árum markvisst unnið að því að draga úr áhættu. Helstu fjárhagslegu áhættuþættir eru álverð, vextir og gengi gjaldmiðla gagnvart Bandaríkjadal.

Segment

Rekstrartekjur

$423M

EBITDA

$329M

Handbært fé frá rekstri 

$258M

Frjálst stjóðstreymi

$248M

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði

$122M

Nettó skuldir

$2,429M

Eiginfjárhlutfall

36.3%

Selt magn

13,186GWst
Segment
Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði

Segment

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði er sá mælikvarði sem Landsvirkjun horfir til þegar grunnrekstur fyrirtækisins er metinn. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 121,8 m. USD árið 2013 en var 103,7 m. USD árið áður. Fyrirtækið horfir til þessa mælikvarða þar sem að óinnleystir fjármagnsliðir eru reiknaðir liðir sem hafa engin áhrif á sjóðstreymi. Miklar sveiflur geta verið á þessum reiknuðu liðum, sem fyrirtækið getur haft takmörkuð áhrif á. Af þeim sökum er ekki rétt að horfa einungis á afkomu félagsins eftir skatta við mat á grunnrekstri félagsins.

Segment
Þróun á handbæru fé fyrir fjármögnunarhreyfingar

Segment

Fjárfestingarhreyfingar á árinu 2013 námu 149,5 m. USD en einungis 10 m. USD voru vegna viðhaldsfjárfestinga í aflstöðvum og flutningsmannvirkjum, þ.e. fjárfestingar sem eru nauðsynlegar fyrirtækinu til að halda áfram núverandi rekstri. Frjálst sjóðstreymi fyrirtækisins nam því 248 m. USD á árinu. Frjálst sjóðstreymi getur fyrirtækið notað til dæmis til nýrra fjárfestinga (sem námu um 138 m. USD), niðurgreiðslu skulda eða greitt eigendum út arð. Handbært fé fyrir fjármögnunarhreyfingar nam 109 m. USD á árinu.

Nettó skuldir voru 2.429 m. USD í lok árs 2013 og standa næstum í stað þrátt fyrir að handbært fé frá rekstri að teknu tilliti til fjárfestinga hafi verið jákvætt um 109,0 m. USD. Meginástæður þess eru reiknað gengistap vegna lána í annarri mynt en Bandaríkjadal og verðbætur. Veginn meðallíftími lánasafnsins var um 6,3 ár. Eigið fé fyrirtækisins lækkaði lítillega á árinu og var 1.658,1 m. USD í lok árs. Eiginfjárhlutfallið lækkaði einnig en það var 36,3% í árslok 2013 en 37,6% í lok árs 2012.

Segment
Nettó skuldir og eiginfjárhlutfall

Section
Segment

Horfur í rekstri

Landsvirkjun mun áfram leggja áherslu á niðurgreiðslu skulda ásamt því að auka hagræði og draga almennt úr áhættu í rekstri fyrirtækisins. Afkoma Landsvirkjunar mun áfram ráðast að miklu leyti af þróun álverðs, vaxta og gjaldmiðla. Tekjur fyrirtækisins eru að hluta til tengdar verði á áli og breytingar á álverði á heimsmörkuðum hafa því áfram áhrif á framtíðartekjur Landsvirkjunar. Álverð er um þessar mundir lágt og mikil óvissa um þróun þess á næstu misserum. Meirihluti lána fyrirtækisins ber breytilega vexti og því er áframhaldandi lágt vaxtastig mikilvægt rekstrinum.

Síðasta vatnsár (sem er frá 1. október til 30. september hvers árs) var slakt vegna úrkomuleysis og kulda á hálendinu sem olli því að ekki náðist að fylla öll miðlunarlón Landsvirkjunar síðasta haust. Það sem af er yfirstandandi vatnsári hefur innrennsli í lónin verið talsvert undir meðallagi. Vegna þessa hefur Landsvirkjun þurft að tilkynna um skerðingu á afgangsorku. Áformaðar skerðingar eru í fullu samræmi við gildandi raforkusamninga og gert ráð fyrir að þær geti orðið allt að 2% af áætlaðri raforkusölu Landsvirkjunar á árinu 2014. Ef leysingar hefjast getur staðan breyst hratt til batnaðar og skerðingum verður þá aflétt.

Búðarhálsvirkjun var formlega gangsett og tekin í fullan rekstur í mars 2014. Næstu virkjanaverkefni Landsvirkjunar sem áætlað er að komi til framkvæmda verða á Norðausturlandi, en framvinda þeirra er háð orkusölusamningum við raforkukaupendur og viðeigandi heimildum.

Section
Segment

Áframhaldandi áhersla á skuldalækkun

Landsvirkjun mun áfram leggja höfuðáherslu á að greiða sem mest niður miklar skuldir fyrirtækisins. Langstærstur hluti af handbæru fé fyrirtækisins frá rekstri mun því, líkt og síðustu ár, fara í að standa skil á afborgunum skulda.

Frá árslokum 2009 hafa nettó skuldir lækkað um 395 m. USD en þrátt fyrir það er Landsvirkjun ennþá of skuldsett. Nettó skuldir eru nú 7,4 sinnum EBITDA (rekstrarhagnaður fyrir afskriftir) en það er um tvöfalt hærra hlutfall en hjá sambærilegum orkufyrirtækjum í nágrannalöndum. Markmið Landsvirkjunar er að ná þessu hlutfalli niður fyrir 5 innan nokkurra ára en það myndi skapa aukið svigrúm til að endurfjármagna erlendar skuldir til langs tíma á hagstæðum vaxtakjörum.

Section
Segment

Fylgiskjöl

Hér má sækja ársreikning Landsvirkjunar 2013 á rafrænu formi. Skjölin innhalda annars vegar ársreikninginn í heild sinni í Acrobat (pdf) skjali og hins vegar helstu stærðir í Excel (xls) skjali.