Rekstraryfirlit 2013
Rekstrartekjur samstæðunnar hækkuðu um 15,1 m. USD frá árinu áður, eða úr 407,8 m. USD í 422,9 m. USD. Hækkunin skýrist einkum af aukningu í seldu magni og hærri flutningstekjum. Meðalheildsöluverð til almenningsrafveitna (án flutningskostnaðar) var 4,0 kr./kWst á árinu samanborið við 3,9 kr./kWst árið áður. Meðalverð til iðnaðar var 25,8 USD/MWst en var 26,2 USD/MWst árið áður. Meðalverð til iðnaðar er reiknað með flutningskostnaði þar sem það á við. Flutningstekjur hækka á milli ára úr 44,4 m. USD í 56,5 m. USD sem skýrist aðallega af hækkun á gjaldskrá. Áhættuvarnir verja rekstur félagsins að hluta gegn sveiflum í álverði og námu tekjufærðar innleystar áhættuvarnir um 15 m. USD árið 2013 samanborið við 18 m. USD árið 2012.
Rekstrarkostnaður án afskrifta og virðisrýrnunar nam 93,8 m. USD á árinu 2013 en var 86,5 m. USD árið áður. Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir, EBITDA, nam 329,1 m. USD og hækkaði frá fyrra ári. EBITDA hlutfallið er 77,8% en var 78,8% árið 2012 og hefur verið nokkuð stöðugt frá 2009. Að teknu tilliti til afskrifta nam rekstrarhagnaður, EBIT 211,5 m. USD en var 209,0 m. USD árið áður.
Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði er sá mælikvarði sem Landsvirkjun horfir til þegar það metur grunnrekstur félagsins. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 121,8 m. USD árið 2013 en var 103,7 m. USD árið áður.
Innleystur gjaldeyrismunur var jákvæður um 7 m. USD árið 2013 (neikvæður um 5 m. USD árið áður) og á hlut í betri afkomu grunnrekstrar. Meðalnafnvextir langtímalána voru um 3,5% að teknu tilliti til ríkisábyrgðargjalds en voru um 3,3% árið áður. Lágt vaxtastig á heimsmarkaði og lækkun skulda síðustu ára hefur haft jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins.
Hluti af orkusölusamningum móðurfélagsins eru tengdir þróun álverðs. Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar krefjast þess að sú tenging sé reiknuð upp sem innbyggð afleiða. Reiknuð breyting á verðmæti þessarar innbyggðu afleiðu færist í rekstrarreikning og er 174,6 m. USD til gjalda á árinu 2013 en var 3,4 m. USD til gjalda árið áður. Gjaldeyrismunur og gangvirðisbreytingar eru að mestu leyti óinnleyst og verður að hafa það í huga við mat á afkomu fyrirtækisins. Óinnleystir fjármagnsliðir eru því sérgreindir í framsetningu stjórnenda.
Afkoma ársins eftir skatta er háð breytingum á óinnleystum fjármagnsliðum sem félagið hefur takmörkuð áhrif á. Vegna lækkunar álverðs á heimsmarkaði var árið 2013 tap á rekstri Landsvirkjunar 38,5 m. USD samanborið við hagnað upp á 55,3 m. USD árið áður.
Fylgiskjöl
Hér má sækja ársreikning Landsvirkjunar 2013 á rafrænu formi. Skjölin innhalda annars vegar ársreikninginn í heild sinni í Acrobat (pdf) skjali og hins vegar helstu stærðir í Excel (xls) skjali.