Section
Segment

Landsvirkjun hefur mikilvægu hlutverki að gegna í íslensku samfélagi og því hlutverki vill fyrirtækið sinna vel. Við höfum skilgreint það sem hlutverk okkar að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Þetta hlutverk leggur stjórn fyrirtækisins, stjórnendur og aðrir starfsmenn sig fram um að rækja af samviskusemi.

Orkufyrirtæki eru vegna eðlis starfseminnar oft í opinberri umræðu og framkvæmdir á vegum þeirra vekja gjarnan upp umræður um mörkin á milli nýtingar og verndar. Landsvirkjun þarf að feta hinn skynsamlega meðalveg þegar kemur að því álitaefni og leita leiða til að tryggja að sem mest sátt sé um þær framkvæmdir sem fyrirtækið stendur fyrir. Í þessu skyni hefur Landsvirkjun efnt til opinnar umræðu um málefni fyrirtækisins og starfsemi hin síðari ár. Frá árinu 2010 hefur fyrirtækið staðið fyrir tveimur stórum fundum á ári, opnum ársfundi og haustfundi þar sem boðið er til umræðu um starfsemi fyrirtækisins og ýmislegt sem tengist orkuvinnslu. Opnu fundirnir hafa verið vel sóttir og líklega hafa þeir átt sinn þátt í því að traust til fyrirtækisins hefur aukist verulega á síðustu árum.

Auk opinnar umræðu um málefni fyrirtækisins hefur stjórn þess lagt mikla áherslu á að starfa í anda góðra stjórnarhátta. Opinberum fyrirtækjum er ekki síður en einkafyrirtækjum mikilvægt að starfa á slíkum grunni. Það heyrir víðast hvar sögunni til að litið sé á stjórnir opinberra fyrirtækja sem framlengingu á stefnu stjórnmálaflokka, enda er stjórnunum ómögulegt að starfa að lögbundnu hlutverki sínu í slíkum fjötrum. Stjórnarmenn í opinberum fyrirtækjum, hvort sem þeir eru tilnefndir af stjórnmálaflokkum eða ekki, bera sömu ábyrgð og skyldur og stjórnarmenn í einkafyrirtækjum. Þeim ber fyrst og fremst að vinna að lögbundnu hlutverki fyrirtækisins og trúnaður þeirra liggur fyrst og fremst við fyrirtækið sjálft.

Pólitísk átök um virkjanamál á að útkljá á hinum pólitíska vettvangi og þau mega ekki hamla því að stjórnir fyrirtækja hafi fagmennsku eingöngu að leiðarljósi í sínum störfum. Liður í slíkri fagmennsku er fyrirsjáanleiki í ytri umgjörð fyrirtækisins og til að efla hann hefur Landsvirkjun lagt á það mikla áherslu að sett sé eigendastefna fyrir fyrirtækið, þar sem skilgreint sé með hvaða hætti íslenska ríkið hyggist fara með eignarhald sitt í fyrirtækinu. Þættir eins og arðgreiðslustefna og starfskjarastefna fyrir æðstu stjórnendur eru eðlilegir liðir slíkrar eigendastefnu og eru til þess fallnir að auka stöðugleika í kringum fyrirtækið.

Stöðugleiki, fagmennska og heiðarleg umræða eru allt þættir sem styrkja Landsvirkjun sem eitt öflugasta fyrirtæki landsins og geta lagt grunn að því að stjórnendur þess fái rækt hlutverkið af alúð.

Section
Segment

Grunnrekstur Landsvirkjunar árið 2013 gekk vel. Raforkusala jókst um 416 GWst og var sú mesta í sögu fyrirtækisins eða 13.186 GWst. Rekstrartekjur hækkuðu um 3,7% og hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði og EBITDA jókst einnig.

Þrátt fyrir ágætan rekstrarárangur í erfiðu markaðsumhverfi var Landsvirkjun rekin með tapi. Ástæðu þess má rekja til lækkandi álverðs á heimsmarkaði og áhrifa þess á reiknað verðmat raforkusamninga. Afkoma Landsvirkjunar mun áfram ráðast af þróun álverðs, vaxta og gjaldmiðla en álverð er lágt um þessar mundir og þróun þess óvissu háð.

Frá árslokum 2009 hafa nettóskuldir Landsvirkjunar lækkað um 395 milljónir USD. Þrátt fyrir þann árangur er fyrirtækið enn of skuldsett og verður áfram lögð höfuðáhersla á niðurgreiðslu skulda.

Merkum áfanga var náð í sögu Landsvirkjunar á árinu þegar framkvæmdum lauk við 16. aflstöð fyrirtækisins, Búðarhálsstöð. Bygging hennar gekk vel, öryggismál voru til fyrirmyndar og kostnaðaráætlanir stóðust með ágætum. Mikil eining hefur ríkt um byggingu Búðarhálsstöðvar og þannig hefur hún verið í fullu samræmi við það markmið Landsvirkjunar að auka sátt um starfsemi fyrirtækisins í samfélaginu. 

Landsvirkjun hefur markað skýra stefnu um samfélagsábyrgð enda gegnir fyrirtækið mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Innleiðing stefnunnar var forgangsverkefni árið 2013 og hafa tugir starfsmanna komið að mótun hennar. Samfélagsleg ábyrgð Landsvirkjunar er að skapa arð, fara vel með auðlindir og umhverfi og stuðla að því að þekking og jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins skili sér til samfélagsins.

Ísland er ríkt af orkuauðlindum og miklir möguleikar fyrir íslenskt samfélag felast í aukinni verðmætasköpun með frekari orkufrekri atvinnustarfsemi. Eftir öra uppbyggingu síðustu áratuga er einnig áhugavert að horfa í auknum mæli til þess hvernig nýta megi íslenskt hugvit til þess að þróa nýjar hugmyndir og tækni í orkuvinnslu og nýtingu orkuauðlindarinnar.

Því er ekki að leyna að breytt umhverfi á alþjóðlegum raforkumarkaði hefur skapað ný viðskiptatækifæri fyrir Landsvirkjun. Erlend fyrirtæki sjá Ísland sem álitlegan kost fyrir starfsemi sína og hefur Landsvirkjun átt í viðræðum við fjölda fyrirtækja í ýmsum iðngreinum. Ný viðskiptatækifæri gera fyrirtækinu kleift að breikka hóp viðskiptavina sinna með það að markmiði að auka verðmætasköpun og minnka rekstraráhættu Landsvirkjunar í framtíðinni.