Orkuvinnsla og
viðskiptatækifæri

Segment

Alþjóðavæðing færði orkufrekan iðnað til Íslands og öflug alþjóðleg framleiðslufyrirtæki sem hafa byggt hér upp starfsemi skapa í dag Landsvirkjun traustan tekjugrunn. Gjörbreytt umhverfi á erlendum orkumörkuðum hefur myndað ný sóknarfæri fyrir íslenska orku og hagkvæm orkuvinnsla og áreiðanlegir langtímaorkusamningar veita Landsvirkjun samkeppnisforskot í breyttu umhverfi. Ný viðskiptatækifæri gera fyrirtækinu kleift að breikka hóp viðskiptavina sinna með það að markmiði að auka verðmætasköpun og draga úr rekstraráhættu Landsvirkjunar í framtíðinni.

Section
Segment

Landsvirkjun í alþjóðlegri samkeppni

Meginskilaboð Landsvirkjunar til áhugasamra viðskiptavina eru að Landsvirkjun býður orkusamninga á markaðsforsendum þar sem lögð er áhersla á eftirfarandi þætti:

  • Samkeppnishæfasta raforkuverð í Evrópu

  • 100% endurnýjanleg orka

  • Áreiðanlegir orkusamningar til langs tíma

Í dag býður Landsvirkjun raforkusamninga á $43/MWst í langtímasamningum. Þessi kjör eru með þeim allra samkeppnishæfustu sem þekkjast í heiminum.

Landsvirkjun heldur uppi öflugu kynningarstarfi erlendis og hafði á árinu frumkvæði að því að fá nýja aðila í orkufrekri starfsemi til að skoða Ísland sem starfsstöð og Landsvirkjun sem orkubirgja. Sérstök áhersla var lögð á að halda áfram kynningarstarfi gagnvart kísilmálm- og gagnaversiðnaði og einnig jók Landsvirkjun markaðsstarf gagnvart koltrefjaiðnaði.

Segment
Segment

Landsvirkjun býður hagstæðasta raforkuverðið innan Evrópu í langtímasamningum, $43/MWst. Til samanburðar var meðalmarkaðsverð á raforku á tímabilinu 2010-2013 $66/MWst í Hollandi, $57/MWst í Skandinavíu og $59/MWst í Þýskalandi.

Orkueftirspurn hefur vaxið ört á undanförnum árum og stutt við sögulega hátt orkuverð á heimsvísu. Spár benda til að á komandi áratugum muni eftirspurnin aukast enn frekar í heiminum og nú þegar eru mörg ríki Evrópu reiðubúin að greiða hátt verð til að tryggja sér orkuöryggi.

Segment
Eftirspurn eftir orku á heimsvísu

Heimild: Alþjóðaorkumálastofnunin

Section
Segment

Nýir viðskiptavinir

Á undanförnum árum hefur viðskiptavinum Landsvirkjunar farið fjölgandi. Nýjar iðngreinar hafa valið að hefja starfsemi á Íslandi vegna hagstæðra langtímaraforkusölusamninga og afhendingaröryggis sem hér býðst.

Á árinu hófst raforkuafhending til GMR Endurvinnslunnar ehf. sem mun nota raforkuna til að endurvinna úrgang frá álfyrirtækjum. Landsvirkjun mun einnig selja raforku til þýska fyrirtækisins PCC sem áformar að reisa kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík. Landsvirkjun undirritaði aukinheldur viljayfirlýsingar um helstu atriði raforkusölusamninga við fjögur önnur fyrirtæki á árinu 2013 og átti í viðræðum við fjölda annarra fyrirtækja. Stefnt er að því að klára samninga á árinu 2014 eftir því sem tækifæri og aðstæður leyfa. 

Árið 2013 voru seldar 13.186 GWst sem er mesta raforkusala í sögu Landsvirkjunar.

Segment
Fjöldi viðskiptavina

Skipting raforkusölu í MWst 2013

Section
Segment

Orkuvinnsla 2013

Vatnsafl: 12.337 GWst, Jarðvarmi: 500,5 GWst, Vindafl: 5,5 GWst Landsvirkjun starfrækir þrettán vatnsaflsstöðvar, tvær jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur á fimm starfssvæðum víðsvegar um landið. Við rekstur aflstöðva er lögð áhersla á heildræna sýn þar sem ráðdeild, áreiðanleiki og sambýli starfseminnar við umhverfi og samfélag eru höfð að leiðarljósi.

Heildarorkuvinnsla árið 2013 var 12.843 GWst. Rúmlega 85% orkunnar fer til stórnotenda í orkufrekum iðnaði en tæpum 15% er dreift til heimila og smærri fyrirtækja. Raforkuvinnsla Landsvirkjunar inn á flutningskerfi Landsnets nam 12.712 GWst árið 2013 sem er 4,3% meiri vinnsla en árið 2012. Hlutur vatnsafls er um 96% í vinnslu Landsvirkjunar og hlutur jarðvarma er 4%.

Segment
Raforkusala Landsvirkjunar 1966-2013

Section
Segment

Hvað eigum við mikið af vatni?

Landsvirkjun vinnur raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum, vatni, jarðvarma og vindi. Hringrás vatnsins er nýtt til að vinna rafmagn og eðli málsins samkvæmt er framleiðslan háð veðurfari hverju sinni.

Vatnsaflskerfið er þannig uppbyggt að á sumrin er bráðnun jökla safnað í miðlunarlón og vatnið nýtt yfir vetrartímann. Þar sem veðurskilyrði á Íslandi eru breytileg en fremur lítill breytileiki á raforkunotkun innan ársins lendir drjúgur hluti vatns því á yfirfalli á hefðbundnu ári. 

Árið 2013 var rennsli til miðlana og lóna Landsvirkjunar nokkuð frábrugðið rennsli fyrri ára. Sumarið var kalt og þurrt og leysing frá jöklum var því undir meðallagi. Í lok sumars vantaði nokkuð upp á að lón fylltust á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og Blöndusvæðinu. Á Austurlandi fylltist Hálslón í lok ágúst og var fullt í þrjár vikur.

Miðlunarlón er góð geymsla fyrir raforku. Miðlanir Landsvirkjunar geta geymt 5150 GWst. Hæst náði staðan 4500 GWst árið 2013. 

Segment
Miðlunarstaða eftir svæðum 2013

Section
Segment

Bestu alþjóðlegu starfsvenjur

Á árinu 2013 var gerð úttekt á starfsemi Blöndustöðvar samkvæmt alþjóðlegum matslykli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana (Hydropower Sustainability Assessment Protocol).

Niðurstaða úttektarinnar er að Blöndustöð uppfyllir kröfur um bestu alþjóðlegu starfsvenjur í 14 efnisflokkum af þeim 17 sem teknir voru til skoðunar. Úttektin fól í sér nákvæma skoðun á 17 ólíkum flokkum sem varða rekstur stöðvarinnar og eiga að gefa mynd af því hversu vel starfsemin fellur að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun.

Landsvirkjun mun nýta reynsluna af úttektinni á Blöndustöð til að gera enn betur á öðrum sviðum í rekstrinum og stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlindanna.

Blöndustöð er 150 MW vatnsaflsstöð á Norðvesturlandi sem vinnur að jafnaði um 910 GWst á ári inn á flutningskerfi Landsnets. Blöndustöð uppfyllir kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur í 14 efnisflokkum af 17.