Búðarhálsstöð er staðsett á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Stöðin nýtir um 40 metra fall í Tungnaá úr frávatni Hrauneyjafossvirkjunar að Sultartangalóni. Uppsett afl stöðvarinnar er 95 MW og árleg orkuvinnslugeta er áætluð 585 GWst. Stöðin var komin í fullan rekstur í mars 2014.
Tilhögun Búðarhálsvirkjunar
Við Búðarhálsvirkjun voru byggðar tvær jarðvegsstíflur austan við Búðarháls skammt ofan við ármót Köldukvíslar og Tungnaár. Önnur stíflan þverar farveg Köldukvíslar og hin frávatn Hrauneyjafossstöðvar. Stíflurnar eru báðar um 25 metra Uppsett afl Búðarhálsstöðvar er 95 MW og árleg orkuvinnslugeta er áætluð 585 GWst.háar þar sem þær eru hæstar og samanlögð lengd þeirra um 1.400 metrar. Með stíflunum myndast inntakslón Búðarhálsvirkjunar, Sporðöldulón. Stærð þess er um 7 km2 að flatarmáli. Um 4 km löng aðrennslisgöng leiða vatnið frá Sporðöldulóni undir Búðarháls að jöfnunarþró og inntaki vestan við hálsinn. Tvær fallpípur úr stáli flytja vatnið frá inntaki að hverflum stöðvarinnar. Stöðvarhúsið er steypt og grafið inn í vesturhlíð Búðarháls. Vélasamstæðurnar eru tvær og er hvor þeirra tæplega 48 MW.
Yfirlit framkvæmda
Framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun hófust upphaflega undir lok árs 2001. Fyrstu framkvæmdir fólust í því að byggja brú yfir Tungnaá og leggja vegi yfir Búðarháls að framkvæmdasvæðum stöðvarhúss og Sporðöldustíflu. Einnig var að hluta grafið fyrir sveifluþró. Sumrin 2008 og 2009 var unnið að frekari undirbúningi, rafstrengur lagður frá Hrauneyjafossvirkjun að fyrirhuguðum framkvæmdasvæðum og vinnubúðir settar upp.
Það fóru 4.500 tonn af stáli og 65.000 rúmmetrar af steypu í mannvirki Búðarhálsstöðvar Fyrstu útboðin voru auglýst árið 2010. Í framhaldi var samið við Ístak hf. um gerð jarðganga, stíflu, stöðvarhúss og annarra mannvirkja. Í desember 2010 var samið við þýska fyrirtækið Voith Hydro um véla- og rafbúnað fyrir stöðina. Útboðum á öðrum hlutum verkefnisins lauk á árinu 2012. Þá var verksamningur undirritaður í september 2011 við Íslenska aðalverktaka um smíði og uppsetningu á fallpípum. Í janúar 2012 var gerður verksamningur við franska fyrirtækið Alstom Hydro um smíði og uppsetningu á lokum og í apríl 2012 var samið við portúgalska fyrirtækið Efacec um framleiðslu á vélaspennum. Allir verksamningar voru undirritaðir í framhaldi af útboðum á evrópska efnahagssvæðinu.
Stærsti einstaki verkþátturinn í byggingu Búðarhálsvirkjunar var gerð aðrennslisganga undir Búðarháls. Aðrennslisgöngin liggja neðanjarðar, eru um 4 km að lengd og með um 140 m2 þverskurðarflöt. Göngin voru grafin frá báðum endum en vegna hæðar þeirra þurfti að grafa þau í tveimur áföngum. Greftrinum lauk í september á þessu ári og voru göngin vatnsfyllt í nóvember. Jarðfræðilegar aðstæður í Búðarhálsi reyndust heldur erfiðari en gert var ráð fyrir og voru verklok í gangagerðinni rúmlega 60 dögum á eftir áætlun.
Lokið var við uppsteypu á stöðvarhúsi og inntaki á árinu 2012 og á árinu 2013 var unnið að innanhússfrágangi og uppsetningu margs konar húskerfa. Í lok ársins 2013 var vinnu við stöðvarhús og inntak lokið og mannvirkin að fullu frágengin.
Búðarhálsstöð er 7. stærsta aflstöð Landsvirkjunar. Uppsett afl hennar er 95 MW og hún vinnur um 585 GWst af rafmagni á ári inn á orkukerfi landsmanna. Það myndi nægja til að sjá um 70.000 heimilum fyrir rafmagni, en orkan verður að mestu afhent stórnotendum í orkufrekri atvinnustarfsemi.
Framkvæmdir við Sporðöldustíflu hófust sumarið 2011 með gerð hjáveitu fyrir Köldukvísl og hreinsun og greftri úr stíflubotni. Sumarið 2012 hófst stíflufylling sem lauk nú í haust. Fylling í Sporðöldulón hófst í nóvember og var lokið á þremur vikum.
Véla- og rafbúnaður stöðvarinnar er frá þýska fyrirtækinu Voith. Framleiðsla á búnaði fór fram víða um heim, m.a. í Svíþjóð, Brasilíu, Kína, Króatíu, á Ítalíu og Spáni. Uppsetning á búnaði hófst í lok árs 2011 og á árinu 2012 var lokið við uppsetningu og innsteypingu á sográsum og sniglum. Mikill og góður gangur var í uppsetningu véla og tilheyrandi búnaðar á árinu og í byrjun október var uppsetningu lokið og prófanir hafnar. Vél 1 framleiddi rafmagn í fyrsta skipti inn á flutningskerfi Landsnets þann 16. desember en eiginleg framleiðsla að loknum prófunum á vélinni hófst 11. janúar 2014. Vél 2 hóf framleiðslu að loknum prófunum 8. febrúar 2014.
Í nærri öllum stöðvum Landsvirkjunar eru notaðir Francis-hverflar. Í Búðarhálsstöð og Steingrímsstöð í Soginu eru hins vegar notaðir Kaplan-hverflar. Kaplan-hverflar eru notaðir við lága fallhæð með miklu vatnsstreymi. Vatnshjól Kaplan-hverfla líkjast skipsskrúfu og hægt er að breyta skurði blaðanna til þess að stýra afli og nýtni hverfilsins.
Lokur og lokubúnaður eru frá franska fyrirtækinu Alstom Hydro en framleiðsla fór að mestu fram hjá undirverktaka þeirra, fyrirtækinu Pemel frá Portúgal. Framleiðsla á lokum hófst um mitt ár 2012 og samhliða uppbyggingu mannvirkja var unnið að uppsetningu á lokubrautum og tilheyrandi búnaði á verkstað. Sográsarlokurnar voru teknar í notkun í ágúst síðastliðnum þegar vatni var hleypt að stöðinni frá Sultartangalóni. Uppsetningu á lokum og lokubúnaði lauk með frágangi á hjólalokum í inntaki stöðvarinnar í nóvember 2013.
Þegar mest lét á framkvæmdatímanum störfuðu hátt í 400 manns við byggingu Búðarhálsvirkjunar. Alls voru unnin um 900 ársverk við verkefnið.
Þrýstivatnspípur stöðvarinnar eru íslensk hönnun og framleiðsla en yfirleitt hafa þrýstivatnspípur í stöðvum Landsvirkjunar verið framleiddar erlendis. Framleiðsla á pípueiningum hófst í Garðabæ í ársbyrjun 2012 hjá Teknís, undirverktaka Íslenskra aðalverktaka, og voru fyrstu einingarnar fluttar á verkstað í maí sama ár. Uppsetningin gekk vel og lauk í byrjun árs 2013 en sandblæstri og málun var lokið í júlí.
Á árinu 2013 störfuðu að jafnaði tæplega 300 manns á verkstað við byggingu Búðarhálsvirkjunar, langflestir eða rúmlega 200 á vegum byggingaverktaka. Í lok árs var búið að vinna um 900 ársverk við Búðarhálsverkefnið. Hér eru ekki meðtaldir aðilar sem unnu að framleiðslu á véla- og rafbúnaði fyrir stöðina víða um heim.
Þrýstivatnspípur stöðvarinnar eru íslensk hönnun og framleiðsla.
Öryggismál voru forgangsverkefni við byggingu Búðarhálsvirkjunar og allar mögulegar ráðstafanir gerðar til að koma í veg fyrir slys. Árangurinn hefur verið góður og hvatning til allra sem að verkefninu komu að halda þeirri miklu og góðu öryggisvitund áfram.
Að undanskildum frágangi vinnusvæða og síðustu prófunum véla lauk byggingu Búðarhálsvirkjunar á árinu 2013. Stöðin var komin í fullan rekstur í mars 2014. Gert er ráð fyrir að vinnubúðir og verkbú verktaka verði flutt af svæðinu á næstu misserum. Næsta sumar verður unnið að frágangi og landmótun umhverfis helstu mannvirki stöðvarinnar.
Hönnun og eftirlit
Verkfræðihönnun Búðarhálsvirkjunar var öll unnin af íslenskum verkfræðistofum. Verkfræðistofan Efla hf. hannaði öll byggingarmannvirki ásamt því að hafa yfirumsjón með annarri hönnun. Verkfræðistofan Mannvit hannaði lokur og fallpípur og verkfræðistofan Verkís vélbúnað og húskerfi. Arkitektar Búðarhálsvirkjunar eru Ormar Þór Guðmundsson, Garðar Guðnason og Sigurður Gústafsson og starfa þeir allir hjá arkitektastofunni OG.
Eftirlit á staðnum var í höndum starfsmanna Landsvirkjunar ásamt starfsmönnum frá verkfræðistofunni Hnit hf.