Breytt umhverfi á alþjóðlegum raforkumörkuðum hefur skapað aukin viðskiptatækifæri fyrir Landsvirkjun. Orkueftirspurn alþjóðlegra fyrirtækja er í dag vaxandi og fjölbreytt og Landsvirkjun svarar þeirri þróun með samkeppnishæfum raforkusölusamningum. Markaðs- og viðskiptaþróunarsvið leiðir sókn Landsvirkjunar inn á nýja markaði og er hlutverk sviðsins að hámarka tekjur Landsvirkjunar til langs tíma. Ný viðskiptatækifæri gera fyrirtækinu kleift að breikka hóp viðskiptavina sinna með það að markmiði að auka verðmætasköpun og minnka rekstraráhættu Landsvirkjunar í framtíðinni.
Skýr skilaboð í alþjóðlegu markaðsstarfi
Landsvirkjun kappkostar að bjóða núverandi og framtíðarviðskiptavinum sínum samkeppnishæfustu kjör í Evrópu í gegnum langtímaraforkusölusamninga. Samsetning og stýranleiki endurnýjanlegra orkugjafa Íslendinga veita fyrirtækinu mikilvægt forskot á samkeppnisaðila sína sem almennt eru háðari síbreytilegum aðstæðum á eldsneytismörkuðum. Langtímaraforkusölusamningar gera viðskiptavinum kleift að lágmarka áhættu auk þess sem raforkuframleiðsla úr 100% endurnýjanlegum orkugjöfum hefur sífellt meira vægi hjá alþjóðlegum fyrirtækjum.
Meginskilaboð Landsvirkjunar til áhugasamra viðskiptavina eru að Landsvirkjun býður orkusamninga á markaðsforsendum þar sem lögð er áhersla á eftirfarandi þætti:
-
Samkeppnishæfasta raforkuverð í Evrópu
-
100% endurnýjanleg orka
-
Áreiðanlegir orkusamningar til langs tíma
Nýir viðskiptavinir
Á árinu hófst raforkuafhending til GMR Endurvinnslunnar ehf. á Grundartanga. GMR Endurvinnslan notar raforkuna til að endurvinna úrgang frá álfyrirtækjum og nú í upphafi rekstrar notar fyrirtækið 8 MW afl á virkum dögum. Stefnt er að því að ná um 10 MW og jafnari notkun innan þriggja ára. Raforkusölusamningurinn var undirritaður í júní 2012.
Þýska fyrirtækið PCC áformar að reisa kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík með 32 þúsund tonna framleiðslugetu. Verksmiðjan mun þurfa 58 MW af afli og yfir 400 GWst af raforku á ári. Landsvirkjun mun selja raforku til verkefnisins og hefur unnið náið með PCC á undanförnu ári. Vonir standa til að framkvæmdir geti hafist á árinu 2014 og verksmiðjan hafið rekstur á árinu 2017.
Landsvirkjun undirritaði aukinheldur viljayfirlýsingar um helstu atriði raforkusölusamninga við fjögur önnur fyrirtæki á árinu 2013. Stefnt er að því að klára þá samninga á árinu 2014 eftir því sem tækifæri og aðstæður leyfa. Landsvirkjun átti einnig í viðræðum við fjölda annarra fyrirtækja á árinu sem verður fylgt eftir á komandi misserum.
Alþjóðlegt efnahagsástand hefur tafið ákvarðanatöku fyrirtækja um allan heim og hægt á framgangi margra verkefna. Fjölmörg fyrirtæki undirbúa þó áfram að hefja framkvæmdir þegar efnahagskreppunni lýkur. Erfitt er að segja fyrir um þróun á árinu 2014 en ljóst þykir að eftirspurn eftir raforku Landsvirkjunar verður meiri en framboð þegar efnahagsástandið á alþjóðamörkuðum batnar.
Á árinu var haldið áfram að kynna Ísland sem ákjósanlega staðsetningu fyrir fjölbreyttan orkufrekan iðnað. Á undanförunum árum hefur viðskiptavinum Landsvirkjunar fjölgað og nýir viðskiptavinir í nýjum iðngreinum hafa valið að hefja starfsemi á Íslandi vegna hagstæðra langtímaraforkusölusamninga og afhendingaröryggis sem hér býðst.
World Economic Forum hefur metið afhendingaröryggi rafmagns á Íslandi með því áreiðanlegasta í heiminum. Af þeim 148 þjóðum sem eru metnar er Ísland í 3. til 8. sæti.
Heimild: The Global Competitiveness Report 2013-2014.
Meðal þess markaðsstarfs sem unnið var á árinu voru auglýsingar í vef- og prentmiðlum, þátttaka á ráðstefnum, fundarherferðir og ný heimasíða. Hluti af markaðsstarfi ársins fólst í gerð og dreifingu kynningarmyndbanda sem hafa verið sýnd á kynningum víða um heim.
Alþjóðleg gagnaver eru dæmi um nýja iðngrein hér á landi og Landsvirkjun telur að Ísland henti sérstaklega vel sem staðsetning fyrir slíka starfsemi. Má þar nefna til hagstæða raforkusölusamninga, stöðugt kalt loftslag og landfræðilega staðsetningu milli Evrópu og Norður-Ameríku. Þegar eru tvö gagnaver í alþjóðlegri starfsemi starfandi á Íslandi og á þessu ári var haldið áfram með sérstakt markaðsátak sem miðar að því að fjölga slíkum viðskiptavinum.
Þjónusta við núverandi viðskiptavini
Raforkusölusamningar Landsvirkjunar við núverandi viðskiptavini tryggja fyrirtækinu traustan tekjugrunn. Langstærstu viðskiptavinir Landsvirkjunar eru álverin sem kaupa nálægt 75% af vinnslu fyrirtækisins.
Á árinu var sett af stað vinna við nýja skilmála á heildsölu til raforkusmásala sem ætlunin er að innleiða á næstu þremur árum. Nýir samningar voru gerðir við heildsöluviðskiptavini í lok árs 2013.
Rio Tinto Alcan á Íslandi tilkynnti á árinu um breytt umfang straumhækkunarverkefnis álversins í Straumsvík. Tilkynnt var að árleg aukning á framleiðslugetu álversins myndi aukast í 205 þúsund tonn, en ekki 230 þúsund tonn eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Í ljósi þessa má reikna með að raforkuþörf álversins verði minni en áformað var. Fyrirtækin hafa átt í góðu samstarfi um áratugaskeið og mun Landsvirkjun halda áfram viðræðum við Rio Tinto Alcan um breytt áform.
Skipting raforkusölu 2013 (MWst)
Ný sóknarfæri fyrir Landsvirkjun
Breytt landslag á orkumörkuðum hefur skapað ný sóknarfæri fyrir Landsvirkjun. Orkueftirspurn hefur vaxið ört á undanförnum árum og stutt við sögulega hátt orkuverð á heimsvísu. Á komandi áratugum má gera ráð fyrir að eftirspurn aukist enn frekar og þá sérstaklega fyrir tilstuðlan þróunarríkja sem sækja hratt í átt aukinna lífsgæða.
Heimild: Alþjóðaorkumálastofnunin
Yfir helmingur allrar raforku í heiminum verður til við bruna á kolum og gasi og búist er við að það hlutfall muni haldast hátt á komandi áratugum. Almennt stýrir verðlag á kolum og gasi verðlagi á raforkumörkuðum. Aukin eftirspurn mun að líkindum þrýsta enn á verðhækkanir kola og gass sem í framhaldinu ýtir óhjákvæmilega undir enn frekari verðhækkanir á raforku á heimsvísu. Þá er líklegt að aukinn stuðningur við að ná tökum á losun gróðurhúsalofttegunda muni einnig leiða til frekari raforkuverðshækkana.
Kola- og gasverð er ekki einsleitt á heimsvísu sem birtist í samkeppnishæfni markaða, meðal annars þegar kemur að raforkuverði. Nærtækt er að líta á nýtilkomnar tækniframfarir í bandarískri gasvinnslu sem hafa leitt af sér sögulega lágt gas- og raforkuverð þarlendis en hafa takmarkað smitað út frá sér. Alþjóðaorkumálastofnunin telur ólíklegt að útbreiðsla nýrrar tækni muni hafa afgerandi áhrif á öðrum mörkuðum en í Bandaríkjunum sem er spáð viðvarandi samkeppnisforskoti hvað varðar sölu á gasi og raforku á komandi áratugum.
Heimild: Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA)
Heimild: Alþjóðaorkumálastofnunin
Hækkandi raforkuverð á heimsvísu og viðvarandi ósamræmi í verðlagi á milli markaðssvæða eykur eftirspurn eftir raforku á Íslandi. Landsvirkjun vinnur allt sitt rafmagn úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Kostnaður fyrirtækisins við endurnýjanlega raforkuvinnslu er fyrirsjáanlegur og að mestu óháður þeim miklu verðsveiflum sem ávallt fylgja kolum og gasi. Þess utan er orkuvinnsla fyrirtækisins eðlisins vegna í vari fyrir mögulega auknum kostnaði tengdum losun gróðurhúsalofttegunda. Ofantalið gerir Landsvirkjun kleift að bjóða viðskiptavinum sínum langtímasamninga og stöðugt verð. Í dag býður Landsvirkjun raforkusamninga á $43/MWst (verðtryggt) í tólf ára samningum, með möguleika á afslætti og lengri samningum í tilfelli nýfjárfestinga. Þessi kjör eru með þeim allra samkeppnishæfustu sem þekkist í heiminum.
Landsvirkjun býður hagstæðasta raforkuverðið innan Evrópu í langtímasamningum, $43/MWst. Til samanburðar var meðalmarkaðsverð á raforku á tímabilinu 2010-2013 $66/MWst í Hollandi, $57/MWst í Skandinavíu og $59/MWst í Þýskalandi.
Heimild: www.montel.no
Hluti af evrópskum raforkumarkaði
Greiningar benda til þess að raforkuverð á Bretlandseyjum og meginlandi Evrópu muni hækka á næstu árum. Mörg ríki Evrópu hafa miklar áhyggjur af orkuöryggi og eru tilbúin að gera langtímasamninga á háu verði til þess að tryggja sér raforku á komandi árum. Nú þegar tryggja bresk yfirvöld hátt verð fyrir endurnýjanlega raforkuframleiðslu næstu 15 til 35 árin. Í mörgum nágrannaríkjum Íslands er raforkuverð mun hærra en íslensk orkufyrirtæki hafa samið um við innlenda kaupendur sína.
Heimild Department of Energy & Climate Change, nóvember 2013
Landsvirkjun hefur lengi haft til skoðunar hagkvæmni þess að selja raforku um sæstreng til Evrópu og nýlegar athuganir gefa til kynna að verkefnið sé tæknilega mögulegt og að líkindum fjárhagslega hagkvæmt. Raforkusala um sæstreng gæti orðið áhugaverð viðbót við önnur viðskipti Landsvirkjunar og gæti unnið vel með aukinni raforkusölu og frekari viðskiptaþróun innanlands. Á árinu var unnið ötullega að því að auka skilning Landsvirkjunar á þýðingu þess fyrir fyrirtækið og íslenska orkuvinnslu almennt ef aðgengi að erlendum orkumörkuðum yrði tryggt. Frekari athuganir verða gerðar á næstu misserum.
Ítarlegri umfjöllun um sæstrengsverkefnið er að finna í kafla um þróunarverkefni Landsvirkjunar
Upprunaábyrgðir og græn skírteini
Á árinu var áfram lögð áhersla á að tryggja aðgengi að mörkuðum fyrir íslenskar upprunaábyrgðir. Í byrjun árs hófust viðskipti við Holland og á haustmánuðum voru upprunaábyrgðir frá Íslandi samþykktar í Þýskalandi. Jafnframt var unnið að því að styrkja viðskiptatengslanet Landsvirkjunar. Í framhaldi fékk fyrirtækið fulltrúa samþykktan í RECS International og World Resource Institute í Washington sem eru sjálfstæð og leiðandi samtök á sviði sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda á heimsvísu. Markaðsverð á upprunaábyrgðum hefur fallið nokkuð jafnt yfir árið þrátt fyrir aukna eftirspurn en á sama tíma hefur framboð aukist þar sem fleiri lönd taka nú þátt á mörkuðum með ábyrgðirnar. Á árinu 2014 verður markaðs- og sölustarfi haldið áfram til að tryggja betur stöðu Landsvirkjunar á alþjóðlegum mörkuðum með upprunaábyrgðir.
Markaður með græn skírteini er nýr og eru væntingar bundnar við hann í Evrópu. Markaðurinn er enn í mótun en frumgreining gefur til kynna að sala grænna skírteina gæti mögulega aukið tekjur Landsvirkjunar á komandi árum.