Íslendingar vinna 99% allrar raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Landsvirkjun vinnur þrjá fjórðu hluta þessarar orku, að langmestu úr vatnsafli en einnig jarðvarma og vindi. Landsvirkjun starfrækir þrettán vatnsaflsstöðvar, tvær jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur á fimm starfssvæðum víðs vegar um landið. Við rekstur aflstöðva er lögð áhersla á heildræna sýn þar sem ráðdeild, áreiðanleiki og sambýli starfseminnar við umhverfi og samfélag eru höfð að leiðarljósi.
Vatnsafl: 12.337 GWst
Vatnsbúskapur Landsvirkjunar var slakur á árinu. Miðlanir stóðu lágt um vorið og sumarið var kalt og þurrt. Við upphaf vetrar vantaði 600 Gl í miðlanir fyrirtækisins. Það sem eftir lifði ársins var veður áfram óhagstætt fyrir vatnsöflun. Vatnsforði Landsvirkjunar var með minnsta móti í lok ársins eða um 2.500 Gl.
Heildarorkuvinnsla Landsvirkjunar 2013 Rennsli til miðlana og lóna Landsvirkjunar árið 2013 var nokkuð frábrugðið rennsli fyrri ára. Á vatnasviði Þjórsár, Tungnaár og Blöndu urðu miklar leysingar í febrúar. Nánast allan snjó á svæðunum tók upp og tífaldaðist innrennsli um tíma. Það sem eftir lifði vetrar og fram á vor var úrkoma á svæðunum ákaflega lítil og nánast engin uppsafnaður snjór í lok vetrar. Vorflóð voru því mjög lítil. Leysing frá jöklum var undir meðallagi fyrir Langjökul, Hofsjökul og Vatnajökul. Í lok sumars vantaði nokkuð upp á að lón fylltust á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og Blöndusvæðinu. Á Austurlandi safnaðist upp mikill snjór yfir veturinn og vorið var fyrst um sinn kalt. Þann 28. maí mældist lægsta vantsborð Hálslóns til þessa, 570 m.y.s. sem er 55 metrum undir hæsta rekstrarvatnsborði. Í byrjun júní hlýnaði hratt og rennsli jókst í ám og lækjum á öllu Austurlandi. Við tók nokkuð hagstætt sumar með tilliti til leysinga og rennslis. Hálslón fylltist í lok ágúst og var fullt í þrjár vikur.
Jarðvarmi: 500,5 GWst
Raforkuvinnsla árið 2013 í jarðgufustöðvum Landsvirkjunar, Kröflu og Bjarnarflagi, var um 500,5 GWst. Landsvirkjun hefur að leiðarljósi að nýta jarðhita á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Hluti þeirrar stefnu er að gæta þess að vatnsforða jarðhitakerfanna sé viðhaldið með góðu jafnvægi á milli nýtingar og innrennslis í kerfið. Sá hluti vökvans sem ekki er nýttur til raforkuvinnslu er skilinn frá og dælt aftur niður í jarðhitageyminn. Frá árinu 2012 hefur niðurdæling við Kröflu aukist í þrepum frá 80 kg/s upp í 140 kg/s. Nú eru um 32 kg/s sem ekki er dælt niður en stefnt er að því að dæla öllu skiljuvatni Kröflustöðvar aftur niður í jarðhitageyminn.
Vindafl: 5,5 GWst
Á árinu voru teknar í rekstur fyrstu vindmyllur Landsvirkjunar. Vindmyllurnar eru tvær og hefur hvor um sig uppsett afl 0,9 MW. Rekstur þeirra hefur gengið vel á árinu og lítið hefur verið um truflanir. Mikil áhersla er lögð á öryggi við viðhald þeirra en sérhæfð þjálfun starfsmanna er nauðsynleg vegna þeirrar miklu hæðar sem menn vinna í. Þjálfun starfsmanna hefur að mestu leyti farið fram hér á landi og sett var upp sérstakt æfingasvæði til þjálfunar og æfinga.
Raforkuvinnsla Landsvirkjunar inn á flutningskerfi Landsnets nam 12.712 GWst árið 2013 sem er 4,3% meiri vinnsla en árið 2012. Hlutur vatnsafls er um 96% í vinnslu Landsvirkjunar og hlutur jarðvarma er 4%.
Rekstur aflstöðva
Rekstur stöðva hefur gengið vel á árinu. Ein alvarleg bilun átti sér stað þegar bilun varð á tengimúffu við spenni í Búrfelli. Fyrirvaralausar truflanir í aflstöðvum fyrirtækisins voru 76 á árinu 2013 en 77 á árinu 2012. Landsvirkjun hefur sett sér það markmið að allar vélar í aflstöðvum fyrirtækisins skuli vera tiltækar 99% af árinu að meðtöldum skipulögðum viðhaldstímabilum. Þetta markmið náðist á árinu. Vélar voru tiltækar 99,7% tímans á árinu, samanborið við 99,9% á árinu 2012.
Eftirlit, viðhald og gæsla aflstöðva var í föstum skorðum á árinu. Landsvirkjun starfrækir samþætt, vottað gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi sem byggist á ISO 9001, ISO 14001, OHSAS 18001 og innra rafmagnsöryggisstjórnunarkerfi (RÖSK) sem uppfyllir kröfur Mannvirkjastofnunar um rafmagnsöryggisstjórnun. Þýska vottunarstofan TÜV SÜD hefur vottað raforkuvinnslu Landsvirkjunar sem græna raforkuvinnslu og auk þess er öryggisstjórnkerfi upplýsingasviðs Landsvirkjunar vottað samkvæmt ISO 27001.
Fjárfestingar í orkumannvirkjum í rekstri
Unnið var að 79 fjárfestinga- og endurbótaverkefnum í aflstöðvum á árinu 2013. Gengið var frá samningi um kaup á nýjum vélarspenni fyrir Búrfellsstöð, sem gert er ráð fyrir að komi til landsins um mitt ár 2014. Í Sogsstöðvum var segulmögnunarbúnaður fyrir vél 3 í Írafossstöð endurnýjaður og í Blöndustöð var gengið frá samningi um uppfærslu á stjórnbúnaði stöðvarinnar, sem er 23 ára gamall. Áætlað er að nýji stjórnbúnaðurinn komi í rekstur um mitt ár 2014. Í Laxárstöðvum var þrýstivatnspípa elstu og minnstu stöðvarinnar, Laxár I, fjarlægð og stöðin tekin úr rekstri. Í Kröflustöð var unnið að endurbótum á öðrum kæliturni stöðvarinnar ásamt því að undirbúa viðgerð á varahjóli hverfla. Í Fljótsdalsstöð var skipt um leiðiskóflur í einni af vélum stöðvarinnar.
Eignastýring orkumannvirkja
Mikilvægt er að horft sé langt fram í tímann þegar hugað er að endurbótum og endurnýjun í orkumannvirkjum og að forgangsröðun sé gerð með heildarhagsmuni fyrirtækisins í huga. Unnið var að því á árinu að innleiða verklag eignastýringar í samræmi við ISO 55001 staðalinn og hugbúnað sem styður það verklag. Markmið með eignastýringu er í hnotskurn að hámarka (besta) rekstur eigna þannig að þær gegni skilgreindu hlutverki og uppfylli settar kröfur. Jafnvel þó að viðhaldi sé vel sinnt þarf að framkvæma endurnýjun eða endurbætur í orkumannvirkjum fyrir lok áætlaðs líftíma ef þau skila ekki tilskyldu hlutverki eða hætta stafar af þeim.
Til lengri tíma litið er fjárfestingaþörf greind á grundvelli aldurs og ástands. Til skemmri tíma litið er tillögum um nauðsynlegar fjárfestingar safnað í heildstæða skrá og síðan forgangsraðað m.t.t. sérstaks virðismats sem grundvallast á áhættugreiningu og markmiðasetningu fyrirtækisins á hverjum tíma.
Hugbúnaðurinn sem tekinn hefur verið í notkun tekur til þriggja þátta í eignastýringunni:
-
Eignaáætlunar
Greining á fjárfestingaþörf til allt að 15-20 ára -
Fjárfestingaáætlunar
Framkvæmdaáætlun til 1-3 ára -
Verkefnisstjórnunar
Utanumhald á stjórnun fjárfestingaverkefna
Hugbúnaðurinn einfaldar verulega vinnu við að greina hvernig mismunandi fjárframlög til fjárfestinga í rekstri hafa áhrif á áhættukostnað fyrirtækisins inn í framtíðina og heldur vel utan um eignastýringuna í heild sinni.
Alþjóðleg úttekt á rekstri Blöndustöðvar–HSAP
Birtar hafa verið niðurstöður úttektar á rekstri Blöndustöðvar samkvæmt nýjum alþjóðlegum Blöndustöð stendur fyrir um 7% af orkuvinnslu Landsvirkjunar. matslykli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana. Umsjón og eftirliti með lyklinum er í höndum Hydropower Sustainability Assessment Council. Í ráðinu sitja fulltrúar frjálsra fjölþjóðlegra félagssamtaka á sviði samfélags- og umhverfismála, stjórnvalda, banka og fjárfesta auk eigenda vatnsaflsvirkjana. Sérstök stjórnunarnefnd gætir samningsins og fylgist með notkun hans. International Hydropower Association (IHA) sér um daglegan rekstur lykilsins.
Alþjóðlegur matslykill um sjálfbæra nýtingu vatnsafls
Matslykillinn var tekinn formlega í notkun í maí 2011. Vinna við gerð hans fór fram á árunum 2008 til 2010 í samstarfi frjálsra fjölþjóðlegra félagssamtaka á sviði samfélags- og umhverfismála, banka og stjórnvalda víðs vegar um heim ásamt IHA sem hafði frumkvæði að gerð lykilsins. Landsvirkjun hefur frá upphafi, í gegnum aðild að IHA, sýnt málaflokknum mikla athygli og stutt í verki vinnu við gerð matslykilsins. Fulltrúi íslenskra stjórnvalda í þeirri vinnu var orkumálastjóri. Lykillinn skilgreinir hversu vel starfsemi vatnsaflsvirkjana fellur að markmiðum um sjálfbæra þróun. Hann byggir á stöðlum í yfir 20 efnisflokkum sem ætlað er að greina sjálfbærni vatnsaflsvirkjana. Beita má lyklinum á mismunandi stigum, við frumhönnun, verkhönnun, byggingu og rekstur aflstöðva. Úttektin fer þannig fram að alþjóðlegir vottaðir úttektaraðilar yfirfara gögn er varða rekstur viðkomandi stöðvar og ræða við fulltrúa fjölbreyttra hagsmunaaðila til staðfestingar á fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum um önnur sjónarmið er varða starfsemi stöðvarinnar.
Niðurstöður úttektar

Niðurstöður úttektar á rekstri Blöndustöðvar
Úttektin fór fram í Blöndustöð og á aðalskrifstofu Landsvirkjunar í Reykjavík í septembermánuði. Úttektarteymið var skipað þremur alþjóðlegum sérfræðingum. Úttektin var umfangsmikil og fyrir utan starfsmenn Landsvirkjunar ræddu úttektaraðilar við yfir 30 einstaklinga, fulltrúa ýmissa hagsmunaaðila, stofnana, sveitarfélaga, fyrirtækja eða félagasamtaka. Úttektin fól í sér nákvæma skoðun á 17 ólíkum flokkum sem varða rekstur stöðvarinnar og eiga að gefa mynd af því hversu vel starfsemin fellur að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun. Sem dæmi um flokka má nefna; samskipti og samráð, stjórnun á umhverfislegum- og samfélagslegum þáttum, vatnsauðlindina, vinnuafl og vinnuaðstöðu og líffræðilegan fjölbreytileika. Niðurstaða úttektarinnar er að Blöndustöð uppfyllir kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur í 14 efnisflokkum af þeim 17 sem teknir voru til skoðunar. Í þremur efnisflokkum uppfyllir Blöndustöð kröfur um góðar starfsvenjur og er í hverjum þeirra aðeins eitt frávik frá bestu mögulegum starfsvenjum.