Rannsóknir, umhverfi
og samfélag

Section
Segment

Landsvirkjun er leiðandi á sviði rannsókna og þróunar á sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Fyrirtækið stuðlar að aukinni þekkingu, nýsköpun og tækniþróun og starfar í samvinnu við háskóla, rannsóknarstofnanir og sjálfstæða sérfræðinga. Landsvirkjun horfir sífellt til framtíðar og leitar nýrra og óhefðbundinna leiða til að ná árangri. Þar skiptir lykilmáli að hjá fyrirtækinu starfar hópur fólks sem hefur framsækni, ráðdeild og traust að leiðarljósi í allri sinni vinnu. Landsvirkjun hefur skýra stefnu um samfélagslega ábyrgð og leitast eftir að auka jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins á samfélag og umhverfi og draga úr þeim neikvæðu.

Rokinu breytt í verðmæta auðlind

Norðan við Búrfell er hraunslétta sem kölluð er Hafið. Þrátt fyrir nafnið er Hafið sjötíu kílómetra frá sjó en þar hefur Landsvirkjun reist tvær vindmyllur í rannsóknarskyni. Vindmyllurnar voru gangsettar í janúar 2013 og eru þær langstærstu sem reistar hafa verið á Íslandi.

Þetta er í fyrsta sinn sem hagkvæmni raforkuvinnslu með vindorku er könnuð hér á landi. Nú er eitt rekstrarár að baki og benda allar niðurstöður til þess að aðstæður á Íslandi séu óvenjuhagstæðar fyrir raforkuvinnslu úr vindorku.

Segment

Afkastageta vindmyllanna á uppitíma 2013

Eftir tæplega eitt ár í rekstri hefur meðalnýting vindmyllanna verið um 40%. Til samanburðar er meðalnýting á heimsvísu 28%.

*frá og með 21. jan.

Segment

Á Íslandi er mikill vindstyrkur frekar lágt yfir sjávarmáli. Það gerir raforkuvinnslu úr vindi enn hagkvæmari þar sem hægt er að hafa lægri möstur en þekkist víða um heim og rekstrarkostnaður verður þar af leiðandi minni. Á Hafinu liggja náttúruleg vindgöng og vindhraði í 55 metra hæð frá jörðu er að jafnaði 10 til 12 metrar á sekúndu.

Erlendis eru vindmyllur langoftast við sjó eða á grunnsævi þar sem vindur er jafnan stöðugri en á landi. Þess vegna vekur eftirtekt að meðalnýtnihlutfall vindmyllanna á Hafinu er óvenjuhátt eða um 40%. Til samanburðar er meðalnýtnihlutfall á heimsvísu um 28%.

Segment

Meðaltal vindhraða í 80 metra hæð

 

k3-vindhradakort.jpg
Section
Segment

Ísland varð hundraðasta landið til að nýta vind til raforkuvinnslu. Möguleikarnir eru miklir hérlendis og getur vindorka hugsanlega orðið þriðja stoðin í orkukerfi Landsvirkjunar. Uppsett afl vindorku í heiminum er nú yfir 3% af allri raforkunotkun, eða 318 GW, og með hröðum tækniframförum verða vindmyllur sífellt hagkvæmari. Alþjóðlegu vindorkusamtökin spá því að uppsett afl frá vindmyllum muni tvöfaldast fyrir lok árs 2016 og innan átta ára gæti uppsett vindafl verið um ein milljón MW.

Uppsett afl vindorku í heiminum er nú yfir 3% af allri raforkunotkun eða 318 GW. Aðstæður til virkjunar vindorku eru óvenju hagstæðar á Íslandi.

Hvernig virkjum við rokið?

Vindmyllur vinna rafmagn í raun á nákvæmlega sama máta og vatnsaflsstöðvar. Stórt segulhjól snýst inni í koparvafningi og breytir hreyfiorku í raforku. Túrbínan er í stöðvarhúsi fyrir aftan spaðana. Vindmyllurnar á Hafinu eru frá þýska framleiðandanum Enercon. Þær eru gírkassalausar en helsti kostur þeirra er að líftími lengist og hljóðmengun, bilanatíðni og orkutap minnka verulega.

Vindmyllurnar eru hvor um sig um 900 kW og samanlögð raforkuframleiðsla þeirra er um 6 GWst á ári. Það myndi nægja til að sjá um 1.400 heimilum fyrir rafmagni til daglegra nota.

Helstu stærðir vindmylla

Segment

Með rannsóknarvindmyllunum fæst dýrmæt reynsla af rekstri vindmylla á Íslandi. Rannsóknirnar snúast ekki síst um rekstur vindmylla við séríslenskar aðstæður, ísingu, skafrenning, ösku- og sandfok ásamt því að huga að ásýnd, hljóðvist, náttúrufari og dýralífi.

Hafið hentar vel fyrir verkefnið þar sem svæðið er fjarri byggð en skammt frá nauðsynlegum innviðum, línum og vegum. Þar er einnig nóg pláss fyrir fleiri vindmyllur ef verkefnið mælist vel fyrir.

Vindorka er hverful og framleiðslan fer eðli málsins samkvæmt eftir veðri. Hún fer því einkar vel með raforkuvinnslu með vatnsafli. Þegar vindmyllur snúast á fullum afköstum má spara vatn í uppistöðulónum en vatnið má svo nýta þegar stillt er í veðri og vindmyllurnar vinna minna rafmagn. Ef vel gengur er markmiðið að nýting vindorku verði í framtíðinni mikilvæg viðbót við vinnslu raforku með vatnsafli og jarðvarma.

Section
Segment

 

Orkuvinnsla í sátt við umhverfi og samfélag

Fyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu þar sem áhrifa þeirra gætir víða. Landsvirkjun hefur sett skýra stefnu um samfélagslega ábyrgð með það að leiðarljósi að hámarka jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins á samfélag og umhverfi. Stefnan var sérstakt forgangsverkefni árið 2013 en síðustu ár hafa tugir starfsmanna fyrirtækisins verið virkjaðir við mótun hennar. Við innleiðinguna var sjónum beint að markvissum aðgerðum og vitundarvakningu meðal starfsmanna um málefni samfélagsábyrgðar.

Section
Segment

60 milljónum úthlutað úr Orkurannsóknarsjóði

Orkurannsóknarsjóður Landsvirkjunar styrkir margvíslegar rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála. Sjóðurinn hefur frá stofnun árið 2008 veitt styrki að heildarupphæð 319 milljón krónur. Sjóðurinn hefur veitt hátt í 30 styrki til doktorsnáms, yfir 60 styrki til meistaranáms og um 130 styrki til annarra rannsóknarverkefna. Árið 2013 var 60 milljónum úthlutað úr sjóðnum til alls 32 verkefna.

Styrkveitingar sjóðsins miða að því að gera fjárframlög Landsvirkjunar til rannsókna skilvirkari og sýnilegri auk þess að tryggja að þær rannsóknir sem sjóðurinn styrkir samrýmist umhverfisstefnu Landsvirkjunar.

Auk Orkurannsóknarsjóðs styður Landsvirkjun við starfsemi háskóla með nýlegum samstarfssamningum við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Tilgangur alls þessa er að efla flæði upplýsinga og þekkingar í báðar áttir og bæta skilyrði til að ný þekking skapist.

Section
Segment

Fjárfest í orkusprotum

Síðustu misseri hefur mikil gróska átt sér stað í nýsköpunarumhverfinu hér á landi. Fjölmargir sprotar úr ýmsum geirum atvinnulífsins hafa sprottið fram, vaxið og dafnað. Ísland er ríkt af orkuauðlindum og því felast miklir möguleikar í aukinni verðmætasköpun með því að styðja við nýsköpun á því sviði. Startup Energy Reykjavík (SER) er ný viðskiptasmiðja sem styður við verkefni og fyrirtæki í orkutengdum iðnaði og þjónustu. SER var stofnað í enda árs 2013 og að henni standa Landsvirkjun, Arion banki, GEORG og Nýsköpunarmiðstöð.

Í viðskiptasmiðjunni fá þátttakendur aðstoð frá 50 manna hópi úr vísinda-, viðskipta- og athafnalífinu við að þróa hugmyndir sínar og kynna fyrir fjárfestum. Markmiðið er að Startup Energy Reykjavík muni auka verðmætasköpun og skapa samfélagslegan ávinning.

Landsvirkjun vill skapa sameiginlegt virði fyrir atvinnulíf og samfélag með því að deila þekkingu og stuðla að nýsköpun og þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum.