Segment

Landsvirkjun leggur áherslu á að vera í fararbroddi sem vinnustaður fyrir framúrskarandi starfsfólk. Hjá fyrirtækinu starfar fjölbreyttur hópur þar sem ólík gildi og menning eru aflgjafi nýsköpunar. Verkefni starfsmannasviðs eru fyrst og fremst að styðja við starfsmenn og stjórnendur með öflugri mannauðsstjórnun.

Segment

Stöðugar umbætur

91% starfsmanna Landsvirkjunar telja sig mjög eða frekar ánægða í starfi samkvæmt vinnustaðagreiningu 2013. Á árinu 2013 urðu miklar umbætur í mannauðsmálum Landsvirkjunar. Unnið var að mótun og þróun mannauðsferla og stjórnun efld og bætt hjá fyrirtækinu. Tvö „umræðuborð“ voru haldin þar sem núverandi verklag við móttöku nýliða og starfslok vegna aldurs var rýnt af fjölda núverandi og fyrrverandi starfsmanna. Á árinu hófst einnig vinna við að þróa núverandi starfsmannasamtöl yfir í frammistöðusamtöl. Um 100 starfsmenn tóku þátt í vinnustofum og rýnihópum vegna þessa. Frammistöðusamtölin munu koma til framkvæmda á fyrsta ársfjórðungi 2014.

Um mitt ár voru gerðar skipulagsbreytingar hjá Landsvirkjun sem fólu í sér að starfsmannasvið tók við rekstri þjónustudeildar sem áður heyrði undir fjármálasvið. Rekstur móttöku, mötuneytis, ferðabókana og húsnæðis höfuðstöðva fyrirtækisins eru nú á forræði sviðsins.  Á liðnu ári tók starfsmannasvið einnig við innri markaðssetningu og miðlun upplýsinga innan fyrirtækisins. Með þessari áherslu getur sviðið betur stutt við stefnumarkandi verkefni og umbætur með fjölþættum hætti, til dæmis með notkun félagsmiðla og öflugum innri vef.

Segment

Starfsþróun

Árið 2013 fjárfesti Landsvirkjun í um 11 þúsund klukkustundum til fræðslu og þjálfunar starfsmanna. Það jafngildir 275 vinnuvikum. Eitt af starfsmarkmiðum Landsvirkjunar er að þróa stöðugt hæfni og hæfileika starfsmanna. Á hverju ári er fjárfest í menntun og þjálfun starfsmanna ásamt því að efla og styrkja stjórnendur í leiðtogahlutverki sínu. Á fyrri hluta síðasta árs fóru allir stjórnendur í gegnum viðamikla stjórnendaþjálfun þar sem megináherslan var lögð á breytingastjórnun. Þá tóku allir starfsmenn þátt í vinnustofu í forvarnarskyni þar sem var fjallað um einelti og samskipti á vinnustað.

 

Gull í Jafnlaunaúttekt PwC

Það er stefna Landsvirkjunar að starfsfólk njóti jafnra tækifæra óháð kyni. Undanfarin ár hafa verið gerðar úttektir á launum og kjörum hjá Landsvirkjun í því skyni að vinna gegn kynbundnum launamun. Launamunur kynjanna mældist aðeins 1,6% og fyrir vikið hlaut Landsvirkjun gullmerki PwC. Munurinn er langt innan þeirra 3,5% marka sem krafist er til að fyrirtækið hljóti gullmerkið.

Segment

Fjölbreyttur hópur

Starfsmenn á launaskrá voru 247 í ársbyrjun að undanskildum stjórnarmönnum, háskólanemum og öðru afleysingafólki. Meðalfjöldi starfsmanna á árinu var 298 en þar gætir mikilla áhrifa frá sumarstarfsfólki. Við árslok var heildarfjöldi starfsmanna 248 í alls 242,25 stöðugildum. Samtals fengu 516 manns greidd laun á árinu en inni í þeirri tölu eru sumarstarfsmenn og nemar.

Hollusta og tryggð einkennir starfsmannahóp Landsvirkjunar. Meðalaldur fastra starfsmanna í árslok var 50,4 ár og meðalstarfsaldur 13,2 ár. Starfsmannavelta á árinu var 4% samanborið við 8,35% í fyrra. Í ár voru veittar 40 starfsaldursviðurkenningar og þeir sem fögnuðu lengstum starfsaldri fengu viðurkenningu fyrir 35 ára starf í þágu fyrirtækisins.

Segment
Starfsaldur

Aldursskipting í árum

Segment

Heilsa og öryggi

Hjá Landsvirkjun skiptir heilsa og öryggi starfsmanna lykilmáli og er öryggisstjórnkerfi fyrirtækisins vottað samkvæmt OHSAS 18001. Vinnulag miðar að því að fyrirbyggja slys og starfað er eftir svokallaðri „núll slysa stefnu“. Markmið fyrirtækisins um að ekkert fjarvistarslys eigi sér stað í starfseminni var því miður ekki uppfyllt á síðasta ári en þá áttu sér stað tvö slys sem leiddu til fjarvista viðkomandi starfsmanna. Öryggismál verða áfram forgangsverkefni hjá Landsvirkjun enda er slysalaus starfsemi ein af megináherslun fyrirtækisins.

Segment

Sumarstörf ungmenna

Starfsmannafjöldi Landsvirkjunar tvöfaldast á sumrin þegar um 230 ungmenni og háskólanemar mæta til sumarstarfa. Á síðasta ári bárust 780 umsóknir um sumarstörf ungmenna og háskólanema. 154 ungmenni á aldrinum 16-20 ára voru ráðin til starfa, 82 drengir og 72 stúlkur. Ungmenni starfa við aflstöðvar fyrirtækisins og halda umhverfi þar snyrtilegu. 

Ráðnir voru 70 háskólanemar, 32 karlar og 38 konur, og unnu þeir fjölbreytt störf á starfsstöðvum Landsvirkjunar um allt land. Við val á umsækjendum er leitast við að ráða hæfileikaríka einstaklinga af báðum kynjum með tilliti til menntunar og reynslu.

Undanfarin ár hefur fyrirtækið auglýst eftir samstarfsaðilum undir merkjum verkefnisins „Margar hendur vinna létt verk“ og býður þar fram vinnu sumarstarfsmanna við uppbyggingu á sviði umhverfis-, ferða- og mannúðarmála í nágrenni stöðva Landsvirkjunar og í Reykjavík. Alls bárust 28 umsóknir víðs vegar að af landinu, frá frjálsum félagasamtökum, íþróttafélögum, ríkisstofnunum, hreppum og þjóðgörðum.