Markmið Landsvirkjunar er að vera leiðandi í sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og stuðla að aukinni þekkingu, nýsköpun og tækniþróun á því sviði. Til að vinna að þessu markmiði eru stundaðar margháttaðar rannsóknir á lífríki landsins, veðurfari, vatnafari, jöklum, jarðfræði, o.fl. Jafnframt eru áhrif virkjana á lífríki, vatn og fleiri þætti vöktuð og áhrif mótvægisaðgerða metin. Fjölmargir aðilar, háskólar, rannsóknastofnanir, fyrirtæki, einstaklingar og vísindamenn, innan sem utan Íslands, vinna að þessum rannsóknum.
Tenging raforkukerfisins við Evrópu
Landsvirkjun hefur lengi haft til skoðunar tengingu íslenska raforkukerfisins við það evrópska um sæstreng. Athuganir fram að síðustu aldamótum bentu til að lagning sæstrengs væri tæknilega möguleg en líklega væri arðsemin of lág. Breyttar aðstæður á evrópskum orkumörkuðum benda nú til að þetta kunni að hafa breyst og að tenging við Evrópu um sæstreng gæti orðið arðsamt verkefni.
Tenging íslenska raforkukerfisins við Evrópu gæti haft mikil áhrif á íslenskt samfélag og efnahagslíf og því er mikilvægt að meta bæði kosti og galla tengingar fyrir íslenskt samfélag. Forsenda þess að ráðist verði í lagningu sæstrengs er að um verkefnið ríki breið samfélagsleg sátt og samstaða hagsmunaaðila.
Í þessu tilliti var sett á fót 15 manna þverpólitísk nefnd á vegum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins sem í júní 2013 skilaði til ráðherra skýrslu um samfélagsleg og þjóðhagsleg áhrif sæstrengs á Ísland. Skýrsla þessi var í framhaldinu lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar sem sendi skýrsluna áfram til atvinnuveganefndar þingsins. Í febrúar 2014 lauk atvinnuveganefnd umfjöllun um skýrsluna og lagði til að frekar skyldi unnið að þróun verkefnisins og því að auka skilning Íslendinga á mögulegum áhrifum þess í víðtækum skilningi.
Samkeppnishæfni sæstrengs
Vísbendingar um að raforkusala um sæstreng kunni að vera samkeppnishæf við erlenda raforkuvinnslu eru bæði til komnar vegna breytts landslag á orkumörkuðum og tæknilegra framfara í lagningu sæstrengja sem sífellt verða lengri og öflugri og eru í auknum mæli lagðir um dýpri og erfiðari hafsvæði.
Aukin eftirspurn jarðefnaeldsneytis hefur almennt stutt við sögulega hátt orkuverð á heimsvísu og raforka er þar engin undantekning enda yfir helmingur raforku í heiminum unninn með kolum og gasi. Þessu til viðbótar er síaukinn skilningur á verulegum umhverfiskostnaði þess að brenna jarðefnaeldsneyti.
Alþjóðaorkumálastofnunin gerir ráð fyrir að spurn eftir orku árið 2035 verði 73% hærri en eftirspurn í upphafi aldarinnar.
Í þessu tilliti hafa Evrópulönd sett á fót stuðningskerfi sem til dæmis er gert að tryggja arðsemi endurnýjanlegrar raforkuvinnslu til langs tíma og stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Mögulegt er að íslensk raforka um sæstreng hefði aðgang að slíku stuðningskerfi.
Heimild Department of Energy & Climate Change, nóvember 2013
Efnahagsleg og samfélagsleg áhrif
Nýlegar athuganir gefa vísbendingar um að raforkusala um sæstreng kynni að vera arðbær íslenskum raforkuvinnsluaðilum og á sama tíma hagkvæm raforkukaupendum handan Atlantshafsins. Arðsemin er þó háð þeim tvíhliða samningum sem kynnu að takast milli Íslendinga og erlendra viðsemjenda, m.a. um raforkuverð en ekki síður um ábyrgð aðila og skyldur hvað varðar ýmsa áhættuþætti. Undanfarin misseri hefur Landsvirkjun unnið að því dýpka skilning fyrirtækisins á undirliggjandi áhættuþáttum en enn er þörf á að auka við þá þekkingu.
Sökum stærðar verkefnisins er breið samstaða á Íslandi nauðsynleg ef verkefnið á að fá brautargengi. Frekar þarf að rannsaka þjóðhagsleg, samfélagsleg og umhverfisleg áhrif framkvæmdarinnar og tryggja að opinská umræða eigi sér stað á Íslandi um niðurstöðu þeirrar vinnu. Nokkur vinna hefur þegar verið framkvæmd í þessu tilliti og má þar nefna vinnu ráðgjafahóps iðnaðar- og viðskiptaráðherra og rannsóknir Gamma á áhrifum sæstrengs á íslensk heimili.
Hvaðan kæmi orkan?
Sæstrengur studdur af vatnsaflsvirkjunum á Íslandi gæfi möguleika á að flytja orku bæði til og frá Íslandi. Endurnýjanleg raforkuvinnsla í Evrópu er mestmegnis í formi ófyrirsjáanlegrar vinnslu með vindorku eða sólarorku. Hins vegar er eftirspurnin breytileg bæði innan dags og innan árs og standa Evrópulönd frammi fyrir því að þurfa að tryggja að til staðar séu orkukostir sem geta unnið á móti sveiflum sem fylgja orkuvinnslu með vind- og sólarorku. Orkukerfi Íslands býr yfir þessum eiginleikum og með tilkomu sæstrengs gæti Ísland boðið raforku sem hægt væri að stýra í samræmi við þörf. Þannig gæfi sæstrengur færi á að nýta betur þau verðmæti sem eru fólgin í stýranlegri orku á Íslandi og verða ekki fullnýtt í lokuðu kerfi.
Sæstrengur gæfi Íslendingum tækifæri til að nýta orkulindir landsins betur og auka þar með afraksturinn af þeim fyrir þjóðarbúið.
Hluti útfluttrar raforku yrði til með bættri nýtingu á Íslandi en með tengingu yrði unnt að vinna meira rafmagn í núverandi vatnsaflsvirkjunum. Innrennsli í vatnslón íslenskra virkjana er mismikið eftir árum en langflest ár er innrennslið meira en þarf til að hægt sé að uppfylla orkusölusamninga. Í einangruðu orkukerfi fer slík ótrygg orka til spillis en með tengingu við stærri markað myndi hún nýtast að hluta. Þar að auki nýta íslenskir viðskiptavinir sjaldnast alla þá orku sem þeir eiga rétt á sem eykur enn á vannýtingu í íslenskri orkuvinnslu. Á þurrkatímum eða ef upp koma ófyrirséðir atburðir í raforkukerfi Íslands, væri hægt að minnka útflutning um sæstreng eða flytja inn tímabundið.
Hluti orkuöflunar yrði með nýframkvæmdum og koma þar til greina hvort sem er verkefni á núverandi orkuvinnslusvæðum eða nýjum. Nýframkvæmdir í vatnsafli, jarðvarma eða vindorku og eru háðar þeim ramma sem íslensk stjórnvöld setja orkuvinnslufyrirtækjum, t.d. með rammaáætlun.
Grunnathuganir á fjárfestingarkostnaði og lagningartíma mögulegs sæstrengs sýna að hagkvæmast er að fara stystu leið ef aðrar forsendur haldast óbreyttar. Stysta leið sæstrengs milli Íslands og Bretlands væri tæplega 1.000 km en nokkrir fýsilegir landtökustaðir á Íslandi og í Bretlandi hafa verið metnir auk mismunandi strengleiða. Í tilfelli landtökustaða á Íslandi hefur auk raforkukerfis Íslands verið litið til tæknilegra þátta eins og hafdýpis, botngerðar, ölduhæðar, fiskveiða og siglingaleiða en Bretlandsmegin hafa rannsóknir meira miðað að aðgengi að þarlendu raforkuflutningskerfi. Næstu skref hvað varðar frekari rannsóknir á mögulegri legu sæstrengs snúa til dæmis að frekari samanburði á hagkvæmni lendingarstaða og áhrifum á aðra starfsemi, svo sem fiskveiðar og olíuvinnslu og síðast en ekki síst umhverfisáhrif.
Statnett og National Grid, eigendur og rekstraraðilar raforkuflutningskerfa Noregs og Bretlands, eru að þróa sæstreng milli landanna sem yrði 1.400 MW og yfir 700 km langur.
Vindorka sem hluti af framtíðinni
Norðan við Búrfell er hraunslétta sem kölluð er Hafið. Þar hefur Landsvirkjun reist tvær vindmyllur í rannsóknarskyni sem voru gangsettar í febrúar 2013. Reksturinn hefur gengið vel og ljóst að á Íslandi eru aðstæður óvenjuhagstæðar fyrir raforkuvinnslu úr vindorku.
Meðalnýtnihlutfall vindmyllanna á Hafinu er 40%, sem er óvenjuhátt. Til samanburðar er meðalnýtnihlutfall á heimsvísu um 28%. Þar sem vindmyllur Landsvirkjunar eru fremur lágar, eða 77 metrar í hæstu stöðu, er hátt nýtnihlutfall þeirra eftirtektarvert. Skýringin er að á Íslandi er mikill vindstyrkur tiltölulega lágt yfir sjávarmáli sem gerir virkjun vinds hagkvæmari þar sem möstur geta verið lægri en ella og kostnaður við rekstur þar af leiðandi minni.
Alls hafa vindmyllurnar á Hafinu unnið rúmlega 5.900 MWst frá gangsetningu. Vinnslan hefur farið verulega fram úr áætlunum en upphaflega var talið að raforkuvinnslan yrði 5.400 MWst yfir árið.
Afkastageta vindmyllanna á uppitíma 2013
Eftir tæplega eitt ár í rekstri hefur meðalnýting vindmyllanna verið um 40% og er það framar vonum. Til samanburðar er meðalnýting á heimsvísu 28%.
*frá og með 21. jan.
Þriðja stoðin í raforkukerfinu
Landsvirkjun hefur ákveðið að meta vindorkugetu á Hafinu af meiri nákvæmni með ítarlegri vindmælingum og hermunum. Einnig verður lagt mat á tillögur varðandi stærð og staðsetningu mögulegra vindlunda. Hér er um talsverða frumkvöðlavinnu að ræða þar sem möguleikar vindlunda hafa ekki verið kannaðir áður á Íslandi.
Meðal þess sem verður rannsakað eru áhrif á umhverfi og samfélag, hagkvæmni uppbyggingar og reksturs og tækifæri sem felast í samspili vind- og vatnsorku. Einnig þarf að rýna lagaumgjörð og reglur og leggja mat á verðmætasköpun vindlunda fyrir raforkukerfið í heild. Samið var við verkfræðistofurnar Mannvit og Eflu um ráðgjafaþjónustu vegna verkefnisins og mun vinnan fara fram næstu tvö árin.
Markmið verkefnisins er að tryggja að Landsvirkjun geti stuðst við ítarlegar greiningar og gögn við ákvarðanatöku um mögulega vindlunda. Frekari rannsóknir og undirbúningur stuðla að markvissum vinnubrögðum við uppbyggingu vindorku sem þriðju stoðarinnar í raforkukerfinu.
Á Íslandi er vindstyrkur mestur að vetri þegar lítið vatn rennur í miðlunarlón Landsvirkjunar. Þannig fer vinnsla raforku úr vindi og vatnsafli einkar vel saman.
Umhverfisrannsóknir
Umhverfisrannsóknir eru veigamikill þáttur í starfsemi Landsvirkjunar. Með rannsóknum er horft áratugi fram í tímann og fylgst með fjöldamörgum umhverfis- og samfélagsþáttum sem kunna að verða fyrir áhrifum af starfsemi fyrirtækisins. Auk upplýsinga um grunnástand veita slíkar rannsóknir mikilvæga sýn á hvað sé í vændum og skipta sköpum við mótun á tilhögun einstakra virkjana.
Landsvirkjun vinnur samkvæmt vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi. Ítarleg umfjöllun um umhverfisvöktun og stefnu fyrirtækisins í umhverfismálum er að finna í umhverfisskýrslu Landsvirkjunar.
Rannsóknir, vöktun og mótvægisaðgerðir
Við þróun virkjanahugmynda skipta góðar upplýsingar um náttúrufar og samfélag miklu máli. Rannsóknir eru nauðsynlegar til að afla þekkingar á þeim fjölmörgu þáttum sem geta orðið fyrir áhrifum af starfsemi fyrirtækisins. Má þar nefna rannsóknir á lífríki, jarðfræði, fornleifum, landslagi, ferðamennsku og margt fleira.
Eftir að ákveðið hefur verið að virkja hefjast vöktunarrannsóknir. Í fyrstu beinast þær að fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum sem ætlað er að draga úr áhrifum framkvæmda og rasks á umhverfið. Eftir að virkjun er lokið og rekstur hefst meta vöktunarrannsóknir áhrif á einstaka umhverfisþætti og árangur mótvægisaðgerða.
Meðal rannsókna og vöktunarverkefna árið 2013
- Lokið var við endurskoðun á gróðurkorti á áhrifasvæði Fljótsdalsstöðvar. Gróðurkortið er meðal annars nýtt við rannsóknir á farleiðum, beiti- og búsvæðum hreindýra á svæðinu. Svæðið sem gróðurkortið nær til var stækkað og er nú rúmlega 3 þúsund ferkílómetrar. Verkefnið var unnið í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands. Meðal annarra verkefna á áhrifasvæði Fljótsdalsstöðvar má nefna fiskirannsóknir á vatnasviði Lagarfljóts og Jökulsár á Dal.
- Á Mývatnssvæðinu voru rannsökuð áhrif jarðnýtingar í Bjarnarflagi á volga grunnvatnsstrauminn til Mývatns. Mælingar á loftgæðum í Mývatnssveit voru efldar og upplýsingarnar birtar á vef Landsvirkjunar fyrir þrjár mælistöðvar. Mat á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar, sem er hátt í 10 ára gamalt, var rýnt og kannað hvort ástæða væri til að endurtaka það að hluta eða í heild.
- Unnið var að verkefnum sem snúa að sjónrænum áhrifum landmótunar og útliti jarðvarmavirkjana. Markmiðið er að í framtíðinni verði tekið meira tillit til landslags þegar mannvirki eru hönnuð. Leitað var leiða til að bæta landmótunarfrágang og lágmarka neikvæð áhrif af óhjákvæmilegu jarðraski við undirbúning virkjana. Á árinu var einnig mótað verklag og leiðbeiningar varðandi landmótun og frágang á virkjanasvæðum. Sérstök úttekt var gerð á staðsetningu efnislosunar og frágangi vegna virkjana á veituleið Blönduvirkjunar.
Losun og binding gróðurhúsalofttegunda
Landsvirkjun stefnir að því að vera kolefnishlutlaust fyrirtæki og er unnið markvisst að því að draga úr allri losun koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda í starfsemi þess.
Útstreymi koltvíoxíðs frá borholum við Kröflu, Bjarnarflag og Þeistareyki hefur verið mæld um árabil. Upplýsingar um náttúrulegt útstreymi frá jarðhitasvæðunum eru hins vegar takmarkaðar og á árinu var hafin vinna til að efla þá þekkingu. Vegna mats á losun gróðurhúsalofttegunda við myndun Sporðöldulóns, inntakslón Búðarhálsvirkjunar, var kolefnisinnihald í jarðvegi og gróðri í lónstæðinu mælt.
Til þess að vega á móti losun vegna starfsemi Landsvirkjunar var samið við Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins um tvö ný svæði til kolefnisbindinar. Jafnframt var samið við Kolvið um að jafna alla kolefnislosun vegna notkunar Landsvirkjunar á bensíni og dísilolíu. Á það jafnt við um bifreiðar og tæki, flugferðir starfsmanna og förgun úrgangs.
Miðlun upplýsinga
Landsvirkjun leggur áherslu á gott samstarf við samfélagið með því að stuðla að gegnsæjum vinnubrögðum og gagnvirku upplýsingaflæði. Ítarlegar upplýsingar um umhverfisrannsóknir og vöktun er að finna í umhverfisskýrslu Landsvirkjunar. Rannsóknarskýrslur má nálgast á bókasafni Landsvirkjunar og stefnan er að þær verði einnig aðgengilegar á Gegni.is. Árangur helstu rannsókna á áhrifasvæði Fljótsdalsstöðvar og Kárahnjúka má skoða á sjálfbærnivef Landsvirkjunar og Alcoa, www.sjalfbaerni.is. Yfirlit og samtímaupplýsingar um vöktun helstu umhverfisþátta eru gerðar aðgengilegar ár hvert á heimasíðu Landsvirkjunar.