Segment

Fyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Landsvirkjun hefur sett skýra stefnu um samfélagslega ábyrgð með það að leiðarljósi að hámarka jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins á samfélag og umhverfi.

Samfélagsleg ábyrgð Landsvirkjunar er að skapa arð, fara vel með auðlindir og umhverfi og stuðla að því að þekking og jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins skili sér til samfélagsins. Stefna Landsvirkjunar um samfélagslega ábyrgð var sérstakt forgangsverkefni árið 2013. Vinna við stefnuna hefur staðið yfir í tvö ár og hafa tugir starfsmanna verið virkjaðir við mótun hennar. Við innleiðinguna var sjónum beint að markvissum aðgerðum og vitundarvakningu meðal starfsmanna um málefni samfélagsábyrgðar. Vinna ársins 2013 gekk vel og náðust margir jákvæðir áfangar.

Undirritun UN Global Compact

Í desember 2013 undirritaði Landsvirkjun UN Global Compact - viðmið Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Með því skuldbindur Landsvirkjun sig til að virða og innleiða tíu reglur um mannréttindi, vinnurétt, umhverfismál og varnir gegn spillingu. Við vonumst til að aðild að UN Global Compact geri aðgerðir okkar á sviði samfélagsábyrgðar enn sýnilegri og markvissari.

Fjárfest í orkusprotum

Startup Energy Reykjavík (SER) er ný viðskiptasmiðja sem styður við verkefni og fyrirtæki 1 í orkutengdum iðnaði og þjónustu. Að henni standa Landsvirkjun, Arion banki, GEORG og Nýsköpunarmiðstöð. Viðskiptasmiðjan verður haldin í mars 2014 og mun standa í 10 vikur. Þátttakendur fá aðstoð frá 50 manna hópi úr vísinda-, viðskipta- og athafnalífinu við að þróa hugmyndir sínar. Á lokadegi SER fá orkusprotarnir tækifæri til að kynna verkefnin sín fyrir fjárfestum.

Markmiðið er að Startup Energy Reykjavík muni auka verðmætasköpun og skapa samfélagslegan ávinning.

Þekking bjargar mannslífum

Starfsmenn Landsvirkjunar hafa sýnt frumkvæði að samfélagsábyrgð með því að nýta þekkingu sína til góðra verka. Óskar H. Valtýsson, fjarskiptastjóri Landsvirkjunar, hefur hannað og þróað leitarkerfi í samstarfi við Landsvirkjun, hugbúnaðar- og tæknifyrirtækið Rögg og Landhelgisgæsluna.

91% starfsmanna Landsvirkjunar telja mikilvægt að Landsvirkjun sé með stefnu um samfélagsábyrgð samkvæmt nýjum viðhorfskönnunum meðal starfsfólks. Kerfið miðar út staðsetningu GSM síma með mikilli nákvæmni og getur því skipt sköpum við leit að fólki. Landhelgisgæslan nýtti sér leitarkerfið í september 2013 við leit að týndum ferðamanni við Skaftafellsjökul með góðum árangri. Unnið er að lokaútgáfu leitarkerfisins sem verður svo afhent Landhelgisgæslunni til eignar og reksturs.

Tryggingarfélögin TM, VÍS og Vörður styrktu verkefnið. Héðinn smiðja hannaði og smíðaði endurgjaldslaust hýsil og loftnetafestingar utan á þyrlur Landhelgisgæslunnar. Vodafone lánaði tíðnir og sérfræðingar Vitvélastofnunar Íslands sáu um gerð staðsetningarforrits.

Segment

Afrakstur 2013

Stefna Landsvirkjunar um samfélagslega ábyrgð hefur sex áherslusvið. Árlega setjum við okkur markmið sem styðja við stefnuna á hverju sviði fyrir sig og árið 2013 settum við okkur alls átta markmið. Afrakstur vinnunnar má skoða hér að neðan.

Markmiði náð Markmið enn í vinnslu Markmið á byrjunarreit
Segment

Stjórnarhættir

Markmið 2013
Staðfesting og innleiðing siðareglna fyrir Landsvirkjun

Siðareglur voru gefnar út og innleiddar í desember 2013. Þær taka á níu efnisflokkum, meðal annars öryggismálum starfsmanna, mikilvægi heiðarleika og virðingu í samskiptum, meðhöndlun trúnaðarupplýsinga og hagsmunaárekstrum. Fyrstu þrjá mánuði ársins 2014 verður starfsfólki gefið færi á að koma með athugasemdir eða ábendingar varðandi siðareglurnar en þær verða gerðar opinberar að þeim tíma liðnum.

Markmið 2014
Innleiða UN Global Compact í starfsemi Landsvirkjunar
Innleiða eigendastefnu í starfsemina

Virðiskeðjan

Markmið 2013
Endurskoðun á stefnu fyrir verktaka og þjónustuaðila með tilliti til nýrrar stefnu Landsvirkjunar um samfélagsábyrgð

Ekki náðist að klára endurskoðun stefnunnar að fullu á árinu. Vinnuhópur hóf þó vinnu við endurskoðun stefnunnar sem inniheldur þjónustuaðila, birgja, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila. Hópurinn fjallaði meðal annars um umfang stefnunnar, leiðir sem önnur fyrirtæki hafa farið við innleiðingu slíkra stefna, mælikvarða fyrir árangur, viðeigandi staðla og leiðbeiningar. Viðeigandi vinnu verður haldið áfram 2014.

Markmið 2014
Semja og innleiða stefnu um heilindi í viðskiptum
Innleiða siðareglur fyrir birgja og þjónustuaðila

Umhverfismál

Markmið 2013
Bætt samskipti og samráð á öllum stigum undirbúnings, framkvæmda og reksturs í tenglum við umhverfismál þannig að starfshættir uppfylli kröfur um góða starfshætti samkvæmt matslykli HSAP og sjálfbærnivísum GRI

Á árinu 2013 var gerð úttekt á starfsemi Blöndustöðvar samkvæmt matslykli HSAP (e. Hydropower Sustainability Assessment Protocol) frá Alþjóða- vatnsorkusamtökunum (e. International Hydropower Association). Matslykillinn leggur sérstaka áherslu á umhverfis- og félagslega þætti. Niðurstöður úttektarinnar sýna að Landsvirkjun upfyllir ströngustu kröfur um góða starfshætti í 14 af 17 þáttum. Fyrir hina þrjá þættina fékk Landsvirkjun næst hæstu einkunn. Meðal þátta sem metnir voru í úttektinni voru ábyrgir stjórnarhættir, meðhöndlun umhverfis- og félagslegra þátta, öryggis- og vinnuréttarmál. Úttektina má nálgasta hér.

Auka þekkingu á umhverfisáhrifum jarðhitavinnslu svo draga megi enn frekar úr áhrifum jarðvarmavirkjana á umhverfið

Vöktun og umhverfiseftirlit var eflt til að auka þekkingu á t.d. brennisteinsvetni, veðurfari og loftgæðum. Mælingar á styrk brennisteinsvetnis í lofti eru nú aðgengilegar í rauntíma á vef Landsvirkjunar og má sjá hér.

Á árinu tók Landsvirkjun þátt í mörgum rannsóknarverkefnum til þess að auka þekkingu á umhverfisáhrifum jarðhitavinnslu. Meðal verkefna má nefna:

  • Samstarf með ÍSOR að skýrslu sem fjallaði m.a. um sjálfbærni orkuvinnslu úr Bjarnarflagi.
  • Rannsóknarverkefni í Kröflu sett af stað til þess að kanna hvernig „pípulagnir“ í jarðhitakerfinu liggja. Niðurstöður má nýta til að bæta orkunýtingu kerfisins.
  • Rannsókn á áhrifum jarðhitanýtingar á heita grunnvatnsstrauminn til Mývatns.
  • Rannsókn á því hvernig nýta megi betur þá orkustrauma vatns,gufu og gass til frekari orkuvinnslu eða annarar nýtingar. Vísbendingar eru um að mögulegt sé að framleiða hreinan koltvísýring úr jarðhitagasi til að nota til iðnaðar og breyta þannig mengun í hráefni.
  • Rannsókn á aðferðum við að lækka styrk brennisteinsvetnis frá jarðgufuvirkjunum. Liður í því er samstarfsverkefnið SulFix. Þar vinna íslensk orkufyrirtæki saman til að þekkja betur niðurdælingu brennisteinsvetnins í jarðhitageyminn og láta það bindast þar sem fast efni.
  • Þátttaka í nokkrum stórum rannsóknarverkefnum sem tengjast vinnslu jarðhita, m.a. Deep Roots of Geothermal Systems sem snýr að því að bæta skilning á jarðhitakerfum og IMAGE: Integrated Methods for Advanced Geothermal Exploration, evrópuverkefni sem snýr að því að bæta rannsóknaraðferðir sem nota má til að kortleggja hitakerfi.
  • Vöktun á efnasamsetningu borholuvökva, gass og gufu frá borholum og jarðhitavirkjunum.  
Minni losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) og kolefnisjöfnun GHL með bindingu í stærri skala en gert er í dag

Tölur um kolefnislosun ársins 2013 eru ekki tilbúnar og því ekki hægt að fullyrða að markmiðinu hafi verið náð að fullu en það verður uppfært um leið og tölur eru tilbúnar. En mikilvæg skref voru stigin til þess að draga úr eða jafna losun GHL, m.a. með landgræðslu og skógrækt. Á árinu var samið við Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins um tvö ný svæði til kolefnisbindingar. Eftir um áratug er talið að jafnaðar binding verði komin í um 2,5 tn koldíoxíð/ha á ári.

Samið var við Kolvið um að jafna alla kolefnislosun vegna notkunar Landsvirkjunar á bensíni og dísilolíu á bifreiðar og tæki, vegna flugferða starfsmanna bæði innanlands og milli landa og loks vegna förgunar úrgangs, eða tæplega eitt þúsund tonn.

Einnig hefur verið unnið að verkefni þar sem metið er hve mikil náttúruleg losun frá jarðvarmasvæðum er í raun og veru. 

Markmið 2014
Betri nýting auðlinda – greining á fjölnýtingartækifærum jarðvarma og aukinni nýtingu vatnsafls
Heildstæð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum
Við setjum okkur samgöngustefnu og vinnum að orkuskiptum í samgöngum

Samfélagið

Markmið 2013
Mótun samskiptaáætlunar við hagsmunaaðila á Norðausturlandi

Samskiptaáætlun fyrir hagsmunaaðila vegna fyrirhugaðra virkjana á Norðausturlandi var gerð. Samskiptaáætlun á því svæði nær til tveggja fyrirhugaðra framkvæmdasvæða, Bjarnarflags og Þeistareykja. Samskiptaáætlunin er þróunarverkefni sem inniheldur tilgang, leiðarljós, samskiptaleiðir og markmið fyrir árið 2014. Tilgangur samskiptaáætlunar er að draga úr óvissu í samskiptum Landsvirkjunar við hagsmunaaðila.

Markmið 2014
Halda að minnsta kosti fimm opna fundi með hagsmunaaðilum árið 2014
Arður greiddur til eigenda

Mannauður

Markmið 2013
Endurskoðun starfsmannastefnu með tilliti til nýs hlutverks og gilda Landsvirkjunar

Miklar breytingar hafa átt sér stað á stefnu Landsvirkjunar undanfarin ár. Breytt hlutverk og gildi Landsvirkjunar hafa áhrif á það hvernig starfsmannamál eru unnin. Við settum okkur það markmið að endurskoða starfsmannastefnuna okkar með tilliti til þessara breytinga. Markmiðinu hefur verið náð að hluta en tilbúin eru drög að stefnunni. Ekki náðist að fá hana rýnda og innleidda á árinu og verður verkefnið klárað fyrri hluta árs 2014.

Markmið 2014
Auka hlutfall kvenkyns stjórnenda hjá Landsvirkjun í 20% árið 2014
Árleg slysatíðni sé 0

Miðlun þekkingar

Markmið 2013
Mótun samstarfs við háskólasamfélagið til að styðja við þekkingarsköpun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa

Landsvirkjun gerði þrjá samstarfssamninga á árinu við mismunandi háskólastofnanir með þetta markmið að leiðarljósi.

Í júlí 2013 tóku Landsvirkjun, Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands höndum saman um að stuðla að uppbyggingu þekkingar á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Samstarfið felur í sér stuðning Landsvirkjunar um 80 milljónir króna til fimm ára til háskólanna tveggja með það markmið að efla nám og rannsóknir í jarðefnafræði, raforkuverkfræði og öðrum fræðasviðum sem tengjast endurnýjanlegri orku.

Í október 2013 hófu Landsvirkjun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands samstarf. Markmið samstarfsins er að efla rannsóknir sem snúa að viðskipta- og hagfræðilegum þáttum orkuvinnslu og auka þannig þekkingu og almennan skilning á áhrifum hennar á íslenskt efnahagslíf. Samstarfssamningurinn hljóðar upp á 24 milljóna stuðning Landsvirkjunar við Hagfræðistofnun í þrjú ár.

Markmið 2014
Auka aðgengi almennings að rannsóknum
Stuðla að nýsköpun í orkugeiranum með stuðningi við orkusprota
Stuðla áfram að þekkingarsköpun í gegnum Orkurannsóknasjóð