Bjarnarflag

Orkunýtingarflokkur

Landsvirkjun hefur unnið að uppbyggingu jarðvarmavirkjana á Norðausturlandi til fjölda ára en næstu verkefni fyrirtækisins eru fyrirhuguð í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum. Rannsóknir gefa til kynna að þessi jarðhitasvæði bjóði upp á mikla möguleika og hafa verkefnin verið kynnt opinberlega við fjölda tækifæra.

Gert er ráð fyrir að 45 MW virkjun í Bjarnarflagi eða á Þeistareykjum verði fyrsta skref í varfærinni uppbyggingu sjálfbærrar jarðvarmavinnslu á Norðausturlandi. Landsvirkjun leggur mikla áherslu á að nýta orkulindir með sjálfbærum hætti, með tilliti til áhrifa á efnahag, samfélag og umhverfi. Viðkvæm jarðhitasvæði er nauðsynlegt að byggja upp í þrepum og gefa tíma til þess að bregðast við nýtingu.

Fyrirhuguð Bjarnarflagsvirkjun myndi nýta háhitasvæðið við Námafjall en svæðið teygir sig  nokkuð suður fyrir fjallið og í norður rennur það saman við jarðhitasvæði Kröflu. Virkjunin yrði staðsett meðfram vesturhlíðum Námafjalls, sunnan þjóðvegar um Námaskarð.

Árið 2013

Á árinu var unnið að útboðshönnun, útboðsgagnagerð og undirbúningsframkvæmdum og er sú vinna á lokastigi. Að beiðni Landsvirkjunar var verkfræðistofan Efla fengin til að gera úttekt á núgildandi mati á umhverfisáhrifum fyrir Bjarnarflagsvirkjun. Lokaniðurstaða úttektar Eflu er að ekki hafi orðið teljandi breytingar á grunnástandi eða lagaramma sem valda því að endurtaka þurfi mat á umhverfisáhrifum í heild sinni. Þó var bent á að umfjöllun um jarðskjálfta sé ekki ítarleg í gildandi mati á umhverfisáhrifum og vanreifun á jarðskjálftavá gæti því kallað á endurmat umhverfisáhrifa þessa tiltekna þáttar. Skipulagsstofnun hefur nú til meðferðar erindi Landsvirkjunar þar sem óskað er eftir að stofnunin úrskurði um hvort þurfi að endurskoða matið að hluta eða í heild.

Á árinu var lögð aukin áhersla á samráð við hagsmunaaðila. Fundað var með hagsmunaaðilum og haldnir opnir íbúafundir í Reykjahlíð um helstu rannsóknarniðurstöðum sem tengjast virkjunarundirbúningi.

Helstu kennistærðir

20
Stærð jarðhitasvæðis (km2)
6
Núverandi vinnsluholur
2
Fyrirhugaðar vinnsluholur
40
Afl til reiðu (MWe)
45
Uppsett afl eftir 1. áfanga (MWe)
738
Orkugeta (GWh/ári)