Hágöngur

Biðflokkur

Landsvirkjun hefur stundað rannsóknir á háhitasvæðinu sem kennt er við Hágöngur (stundum Köldukvíslarbotna) í rúman áratug. Viðnámsmælingar benda til að jarðhitasvæðið sé 28–50 km2 að stærð og hiti í djúpkerfinu mælist um 300°C.

Árið 2003 var boruð 2360 m djúp rannsóknarhola í Sveðjuhrauni við austurströnd Hágöngulóns sem gefur vökva sem hentar vel til nýtingar og jafngildir um 4 MW vinnslu. Þá var útbúið borplan fyrir aðra holu og vegur lagður að því.

Háhitasvæðið teigir sig til vesturs undir Hágöngulón en austurhluti er í Sveðjuhrauni og undir Kvíslarhnjúkum. Aðgangur að miklu kælivatni úr lóninu skapar mikil tækifæri til bættrar nýtingar í rekstri jarðhitavirkjunar á svæðinu, auk þess sem mögulegt er að draga úr áberandi gufustrókum.

Fyrirhugað framkvæmdasvæði er að mestu innan mannvirkjabeltis Hágöngulóns, við vesturjaðar Vatnajökulsþjóðgarðs en náttúrufar á svæðinu er vel þekkt, m.a. frá rannsóknum í tengslum við mat á umhverfisáhrifum Hágöngulóns. Verði af framkvæmdum þarf að leggja nýjan aðkomuveg af Sprengisandsleið.

Árið 2013

Á árinu var hugað að nýrri aðkomuleið að svæðinu í samráði við stjórnendur Vatnajökulsþjóðgarðs, Ferðafélags Íslands og sveitarfélög. Unnið var að yfirborðsrannsóknum en frekari rannsóknum haldið í lágmarki á meðan óvissa ríkir um flokkun í rammaáætlun.

Helstu kennistærðir

30
Stærð jarðhitasvæðis (km²)
1
Núverandi vinnsluholur
20
Fyrirhugaðar vinnsluholur
45
Uppsett afl, 1. áfangi (MW)
90
Uppsett afl, 2. áfangi (MW)
135
Uppsett afl, samtals (MW)
1.107
Orkugeta jarðhitasvæðis (GWh/ári)