Norðlingaölduveita

Verndarflokkur

Norðlingaölduveita hefur verið íhuguð í mörgum útfærslum í áraraðir. Sú útfærsla sem lögð var fram í samþykktri rammaáætlun árið 2013 felur í sér veitu úr farvegi Þjórsár um göng undir Kjalöldu yfir í Kvíslaveitufarveg og þaðan í Þórisvatn. Þjórsá væri stífluð um tvo kílómetra neðan við ármót Svartár og við það myndi skapast inntakslón í farvegi árinnar. Vatni úr lóninu yrði síðan dælt yfir í Kvíslaveitu. Vegna þess er áætlað að reisa allt að 25 MW dælustöð með tilheyrandi mannvirkjum. Fjarlægð stíflu frá núverandi friðlandsmörkum Þjórsárvera er 7 kílómetrar en efsti hluti lóns er í 2 kílómetra fjarlægð.

Rekstrarlónhæð er í 566-567,5 metra yfir sjávarmáli, sem er 7,5-9 metrum lægri en í úrskurði Skipulagsstofnunar árið 2002. Lónið er allt utan friðlandsins í Þjórsárverum og hefur ekki áhrif inn í friðlandið eins og kveðið er á um í úrskurði þáverandi umhverfisráðherra árið 2003.

Helstu umhverfisáhrif eru að gróin svæði skerðast neðan Eyvafens um 0,2 ferkílómetra og að meðalrennsli á ársgrundvelli við fossinn Dynk minnkar úr 91 í 52 rúmmetra á sekúndu. Yfir aðal ferðamannatímann í júlí og ágúst minnkar meðalrennsli úr 172 í 119 rúmmetra á sekúndu.

Árið 2013

Landsvirkjun er að skoða nýjar og breyttar útfærslur á veitukostum við Norðlingaöldu. Tilgangur þess er að koma til móts við sjónarmið náttúruverndar. Athugasemdir faghóps 1 rammaáætlunar snérust mestmegnis um skerðingu á ósnertu víðerni vestan Þjórsár, svokallað Eyvafen.

Þær útfærslur sem nú eru til skoðunar hafa þannig ekki áhrif á Eyvafen. Hinar nýju útfærslur myndu ennfremur horfa til þess að stýra rennsli á fossana neðar í ánni á ferðamannatíma. Allar nýjar útfærslur Norðlingaölduveitu, yrðu lagðar fram í lögbundin ferli svo sem rammaáætlun og mat á umhverfisáhrifum.

Helstu kennistærðir

846
Vatnasvið (km²)
38
Meðalrennsli um veitu  (m³/s)
4,9
Flatarmál lóns við vatnshæð 567,5 m y.s. (km2)
11,7
Miðlun (Gl)
7
Lengd skurða og jarðganga (km)
652
Orkugeta (GWh/ári)