Stækkun Kröfluvirkjunar
Landsvirkjun hefur undanfarin ár haft til athugunar betri nýtingu jarðhitasvæðis Kröfluvirkjunar. Þessar athuganir eru liður í áætlunum fyrirtækisins að bæta nýtingu á núverandi aflsvæðum Landsvirkjunar og hafa meðal annars verið kynntar í ársskýrslu Landsvirkjunar 2011 og á haustfundi fyrirtækisins 2012.
Á Kröflusvæðinu er gert ráð fyrir áframhaldandi rekstri núverandi Kröflustöðvar 60 MWe en einnig er í athugun stækkun um eina 40 MWe vél eða nýrri stöð norðan við núverandi stöð sem byggð yrði upp í allt að þremur 45-50 MWe áföngum.
Landsvirkjun leggur mikla áherslu á að nýta orkulindir með sjálfbærum hætti, með tilliti til áhrifa á efnahag, samfélag og umhverfi. Viðkvæm jarðhitasvæði er nauðsynlegt að byggja upp í þrepum og gefa tíma til þess að bregðast við nýtingu.
Árið 2013
Nýting á heitum en tærandi vökva úr djúpkerfi er forsenda fyrir stækkun Kröfluvirkjunar. Á árinu var samband þriggja djúpra niðurrennslisholna og grynnri vinnsluholna kannað með umfangsmiklum ferilefnaprófunum. Fyrstu niðurstöður lofa góðu en nýtingarmöguleikar hins orkuríka súra vökva verða áfram rannsakaðir á næstu árum áður en ákvarðanir um frekari uppbyggingu verða teknar.