Stóra Laxá
Á síðustu tveimur árum hefur verið unnið að frumrannsóknum og forathugun á virkjunarkostum í efsta hluta Stóru Laxár í samræmi við rannsóknarleyfi, sem Landsvirkjun var veitt á árinu 2012.
Rannsóknir hafa fyrst og fremst beinst að vatnamælingum auk þess að afla nauðsynlegra kortagagna. Fyrstu vettvangsrannsóknir á jarðfræði svæðisins fóru fram á sl. ári og nú er unnið að fyrstu hugmyndum um mögulega útfærslu virkjunar.
Sú tilhögun sem unnið er út frá byggist á því að veita Leirá um 4700 m langan skurð inn í Stóru Laxá nokkru ofan við ármót ánna í dag og þeim verði saman veitt inn í svokallað Illaver þar sem megin miðlunarlón virkjunarinnar yrði. Á þessu stigi er ekki gert ráð fyrir annarri miðlun virkjunarinnar. Lónið yrði um 40 Gl og tæpir 5 km2 að flatarmáli. Þessi tilhögun hefur í för með sér að reisa þarf 3 litlar stíflur sunnan og vestan Illavers. Frá suðurenda lónsins er gert ráð fyrir um 2 km aðrennslisgöngum eftir Kóngsási, við enda þeirra yrði um 220-240 m lóðrétt göng að neðanjarðar stöðvarhúsi og frá stöðvarhúsi yrðu gerð um 2300 m löng frárennslisgöng sem opnast myndu út í Skillandsá rétt ofan við ármótin við Stóru Laxá. Aðkomugöng að stöðvarhúsi yrðu um 1500 m.
Virkjunin gæti verið um 30-35 MW og fyrstu athuganir á orkugetu benda til þess að hún yrði 180-190 GWh/ári.
Árið 2013
Á árinu var unnið að jarðfræðirannsóknum og vatnamælingum á svæðinu.