Þeistareykir
Landsvirkjun hefur unnið að uppbyggingu jarðvarmavirkjana á Norðausturlandi til fjölda ára en næstu verkefni fyrirtækisins eru fyrirhuguð í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum. Rannsóknir gefa til kynna að þessi jarðhitasvæði bjóði upp á mikla möguleika og hafa verkefnin verið kynnt opinberlega við fjölda tækifæra.
Gert er ráð fyrir að 45 MW virkjun í Bjarnarflagi eða á Þeistareykjum verði fyrsta skref í varfærinni uppbyggingu sjálfbærrar jarðvarmavinnslu á Norðausturlandi.
Jarðhitasvæðinu á Þeistareykjum er skipt í austur- og vestursvæði en á grundvelli viðnámsmælinga og jarðhitalíkana telja Þeistareykir ehf. að svæðið geti í heild staðið undir allt að 270 MWe raforkuframleiðslu. Fram til þessa hafa boranir miðast við vinnslu á austurhluta svæðisins. Boraðar hafa verið sex djúpar rannsóknarholur á austurhluta svæðisins og ein 400 metra kjarnahola á vestursvæðinu. Ráðgert er að bora þrjár til fjórar nýjar rannsóknarholur til að skilgreina vinnslusvæðið nánar áður en ráðist verður í byggingu virkjunar.
Árið 2013
Á árinu var unnið að útboðshönnun, útboðsgagnagerð og undirbúningsframkvæmdum og er sú vinna á lokastigi. Í desember var sótt um virkjunarleyfi og leyfi til nýtingar jarðvarma til Orkustofnunar. Á árinu sneru undirbúningsframkvæmdir að rafvæðingu, vegagerð og uppsetningu vinnubúða. Uppbygging virkjanavegar frá Húsavík að Þeistareykjum er nánast lokið.Mat á umhverfisáhrifum Þeistareykjavirkjunar er í fullu gildi samkvæmt úrskurði Skipulagsstofnunar frá því í október 2010. Unnið er að minniháttar breytingum á deiliskipulagi sem miða að því að aðlaga framkvæmd að landfræðilegum aðstæðum og lágmarka umhverfisáhrif.